top of page
  • Writer's pictureFrosti Jónsson

Árangur auglýsinga og endabúnaður

Updated: Feb 19

Birtingahúsið hefur frá árinu 2012 sinnt samræmdum árangursmælingum á innlendum og erlendum vefmiðlum samhliða árangursmælingum eftir endabúnaði notenda ásamt fleiru. Samræmdar mælingar eru forsendur þess að hægt er að bera saman árangur miðla og rýna í þær breytingar sem verða til lengri tíma.


Breytt hlutdeild eftir tækjum

Hlutdeild snjalltækja hefur aukist jafnt og þétt á undanförnum árum. Árið 2015 var hlutdeild auglýsingabirtinga í snjalltækjum innan við 20% en fyrstu 6 mánuði þessa árs er hlutdeild birtinga á snjallsímum í kringum 45%. Hlutdeild spjaldtölva er í kringum 5% af heildarfjölda birtinga og birtingar í tölvum eru um 45%. Hlutdeild snjallsíma eykst lítillega milli ára á kostnað spjaldtölva. Árið 2019 var hlutdeild snjallsíma ríflega 39% og spjaldtölva um 10%. Það eru því áframhaldandi breytingar á hlutdeild auglýsingabirtinga eftir tækjum og snjallsímar halda áfram að sækja í sig veðrið.


Fleiri smella á auglýsingar á snjallsímum

Hlutdeild birtinga í snjallsímum er ekki aðeins að aukast. Fleiri smella á auglýsingar sem birtast á snjallsímum og hlutfall þeirra sem klára hverskyns kaup í snjalltækjum er einnig að aukast. Árið 2015 voru um 28% allra smella á snjallsímum og hlutfallið var svipað á spjaldtölvum. Hlutfall smella á snjallsímum fyrstu 6 mánuði ársins 2021 er tæp 52%, ríflega 10% á spjaldtölvum og um 38% á tölvum (borðtölvur, fartölvur). Þetta þýðir einfaldlega að vægi snjallsíma eykst ár frá ári og neytendur eru óhræddari við að smella á auglýsingar á símunum sínum. Þetta þýðir einnig að árangur auglýsinga í snjalltækjum er almennt betri en á tölvum ef horft er til mælikvarða eins og smellhlutfalls.


Fleiri klára kaup á snjallsímum

En hlutfall þeirra sem smella á auglýsingar á snjallsímum er ekki bara að breytast. Neytendur virðast nýta sér snjallsímana í ríkari mæli til að klára kaup. Árið 2015 var hlutfall þeirra sem klára kaup eftir að hafa smellt á eða séð auglýsingar á snjallsímum tæp 13% en fyrstu 6 mánuði þessa árs er þetta hlutfall í kringum 47%. Þessi þróun hefur verið nokkuð jöfn og hröð undanfarin ár, en einhver vatnaskil virðast vera á milli áranna 2019 og 2020 þegar þetta hlutfall fer úr tæpum 28% í 42%.


Þá er einnig áhugavert að sjá hve langur tími líður frá birtingu auglýsinga og þar til að kaup eru gerð. Um 97% allra kaupa eiga sér stað 7 dögum frá birtingu og um 50% kaupa eiga sér stað innan við sólarhring frá fyrstu auglýsingabirtingu. Þetta undirstrikar mikilvægi þess að mæla árangur auglýsinga og besta birtingar m.t.t. árangurs. Ef auglýsingin er ekki að virka til skamms tíma þá eru líkurnar á að hún virki til lengri tíma litlar sem engar.


Lokaorð

Auglýsingamarkaðurinn er sífellt að taka breytingum og það er ljóst að vægi snjalltækja er sífellt að aukast. Í því felast heilmikil tækifæri fyrir auglýsendur almennt. En það er um leið mikilvægt að fylgjast vel með þessari þróun og mæla árangur með þeim hætti að hægt sé að bera saman miðla, rýna í sögulega framvindu og þróun og spá fyrir um hvað er framundan.

8 views0 comments

Recent Posts

See All

コメント


bottom of page