Leitarvélabestun og uppruni heimsókna - Birtingahúsið

Þegar kemur að markaðssetningu og ekki síst markaðssetningu á netinu þá er þáttur leitarvéla óumdeilanlega mikilvægur í öflun nýrra viðskiptavina. Sýnileiki í leitarvélum er nauðsynleg forsenda þess að viðskiptavinir í kauphugleiðingum finni vörur og þjónustu þó fleiri þættir spili þar inn í og hafi áhrif.

Sumar heimsóknir verðmætari en aðrar

Heimsóknir á vef eru misjafnlega verðmætar eftir því hvaðan þær koma. Það sést glögglega þegar við rýnum í veftölfræði líkt og þá sem Google Analytics mælir. Heimsóknir sem koma í gegnum leitarvélar eru að öllu jöfnu verðmætari en annars konar heimsóknir, t.d. þær sem skila sér í gegnum auglýsingaborða eða samfélagsmiðla, svo eitthvað sé nefnt.

Þetta endurspeglast í ýmsum mælanlegum þáttum eins og í tímalengd heimsókna á vef, þ.e. hversu lengi fólk dvelur á vefsíðunni og Bounce Rate sem segir okkur til um hlutfall notenda sem koma inn á vef og fara beint þaðan út aftur án þess að skoða aðrar undirsíður. Þessi verðmæti heimsókna koma líka vel í ljós þegar við skoðum hverjir klára kaup á vef og hvaðan þeir notendur koma. Það er því ekki óalgengt að sjá mun hærra hlutfall notenda klára kaup sem koma inn á vef í gegnum leitarvélar en t.d. notendur sem koma inn á vef eftir að hafa smellt á vefborða eða færslu á Facebook.

Mynd 1: Uppruni heimsókna og sölur á vef (raunverulegt dæmi). Heimsóknir í gegnum almennar leitarniðurstöður (Organic Search) skila flestum sölum og þar á eftir koma beinar (direct) heimsóknir.

Mynd 2: Uppruni og tímalengt heimsókna á vef. Notendur sem koma á vef í gegnum leitarvélar dvelja lengur en þeir sem koma á vef eftir öðrum leiðum

Magn, gæði og árangursmælingar

Magn heimsókna inn á vef er því ekki endilega sama og gæði eins og sjá má þegar gögnin eru yfirfarin. Mikilvægi heimsókna í gegnum leitarvélar undirstrikar enn og aftur mikilvægi þess að fyrirtæki hugi að leitarvélabestun og notkun leitarvéla almennt þegar kemur að markaðssetningu. Það undirstrikar líka mikilvægi þess að mæla ítarlega árangurinn af þeim aðgerðum sem eru í gangi hverju sinni en jafnframt að gæta að samspili milli miðla og aðgerða.

Langtímasýn og skýr markmið

Það eru ótal atriði sem skipta máli við leitarvélabestun. Þættir eins og efnistök, tæknilegir þættir, meta upplýsingar, vísanir á vef, vinsældir og fleira. Birtingahúsið hefur um árabil hjálpað fyrirtækjum að ná árangri og auka sýnileika í leitarvélum. Það eru þó engar töfralausnir til í þessum efnum og mikilvægt að fyrirtæki hafi skýra sýn á verkefnið, setji sér markmið en séu ekki síður tilbúin að ráðstafa tíma og fjármunum í þessa vinnu. Það skilar sér margfalt til baka.

Höf: Frosti Jónsson