top of page
  • Writer's pictureFrosti Jónsson

Framtíð íslenskunnar á leitarvélum

Hver er framtíð leitarvéla og hvaða breytingar eru fyrirsjáanlegar? Er notkun leitarvéla öðruvísi á Íslandi en annars staðar og í hverju liggur munurinn? Hvaða áskoranir eru fyrirsjáanlegar á litlum markaði eins og þeim íslenska og hefur þetta eitthvað með tungumálið að gera?


Notkun leitarvéla á Íslandi

Flest okkar nota leitarvélar til að afla upplýsinga af öllu tagi en um 90% Íslendinga nota leitarvélar vikulega eða oftar samkvæmt tölum frá Gallup. Notkun leitarvéla er mikil í öllum aldursflokkum, en um 73% fólks 65 ára og eldra segist nota leitarvélar vikulega eða oftar samkvæmt könnun Gallup og 97% fólks á aldrinum 18-24 segir slíkt hið sama. Leitarvélar gegna þannig mikilvægu hlutverki meðal almennings þegar kemur að öflun upplýsinga. Fyrir fyrirtæki skipta leitarvélar miklu máli hvað varðar öflun viðskiptavina.


Notkun leitarvéla á íslandi

Örstutt um sögu leitarvéla

Leitarvélar eru ekki nýjar af nálinni. Archie er gjarnan nefnd sem fyrsta leitarvélin en heiðurinn að henni átti Alan Emtage sem stundaði nám við McGill háskólann í Montreal, Kanada. Þetta var árið 1990 og Archie því að nálgast fimmtugsaldurinn. Síðan þá hefur margt breyst og margar leitarvélar komið og farið eða runnið saman við eitthvað annað. Hverjir kannast ekki við Yahoo (1994), WebCrawler (1994), Magellan (1995-2001), Alta Vista (1995), Excite (1995), Infoseek (1994/1995-2001), The WWW Worm (1993), og Lycos (1994), HotBot (1996) svo nokkrar séu nefndar.


Google er mest notaða leitarvélin í dag með um 82% markaðshlutdeild á heimsvísu. Upphaf Google má rekja aftur til ársins 1996 og er í dag eitt af verðmætustu vörumerkjum heims. Bing frá Microsoft, helsti keppinautur Google, er með tæp 11% hlutdeild, en hlutdeild Bing hefur hægt og bítandi verið að vaxa þó hún eigi nokkuð í land að ná Google. En kannski er það að breytast með tilkomu gervigreindar og breyttrar hegðunar fólks á netinu. Alphabet, fyrirtækið sem á og þróað hefur Google leitarvélina með góðum árangri, hefur ekki verið mjög sannfærandi á öðrum sviðum og nægir að nefna Gemini sem var stungið aftur ofan í skúffu eftir misheppnað útgáfu sem afhjúpaði veikleika Google algrímisins í að meðhöndla upplýsingar og færa í myndrænan búning með hjálp gervigreindar.


Blikur á lofti

Það eru miklar breytingar á leitarvélamarkaðinum og einkum tvennt sem má nefna í því samhengi: Tilkoma gervigreindar eða öllu heldur aukið/breytt vægi gervigreindar í öflun og miðlun upplýsinga á netinu er eitt. Hegðun notenda er annað, einkum raddstýrð leit sem er sífellt að aukast. Komandi kynslóðum mun eflaust finnast það skondið að fólk skuli hafa dundað sér við að skrifa leitarorð í lítinn glugga í vafra og eytt svo löngum tíma að skrolla yfir ógrynni af leitarniðurstöðum til að finna það sem leitað var að. Ekki endilega sérlega skilvirk aðferð, og af hverju að skrifa þegar þú getur talað við símann eða tölvuna og látið algrímið og gervigreindina mata þig á réttum upplýsingum?


Í Bandaríkjunum segjast um 58% fólks nota raddstýrða hjálp til að afla upplýsingar um fyrirtæki í nágrenninu og um 50% segjast nota raddstýrða leit daglega. Allt að 20% af allri leit í Google appinu eru raddstýrðar. Um 27% fólks segjast nota raddstýrða leit á snjalltækjum og um 60% neytenda segjast hafa prófað raddstýrða leit á einhverjum tímapunkti. Í Bretlandi og Þýskalandi notar rúmlega þriðjungur fólks raddstýrða leit á snjallsíma í leit sinni að upplýsingum á netinu.


Er íslenskan eyland?

Þegar kemur að raddstýrðri þjónustu (Voice assistant eins og Siri, Alexa og Google) og raddstýrðri leit þá verður að viðurkennast að Íslendingar standa höllum fæti sökum lítils máltæknistuðnings við íslenskuna.


Máltækni er tiltölulega nýlegt orð í íslensku – ensk þýðing á því er language technology. Einnig hefur orðið tungutækni verið notað um sama hugtak. Í stuttu máli má segja að með máltækni sé átt við hvers kyns samvinnu tungumáls og tölvutækni sem hefur einhvern hagnýtan tilgang; beinist að því að hanna eða útbúa einhvern hugbúnað eða tæki sem nýtist mönnum í starfi eða leik. Þessi samvinna hefur tvær hliðar og felst annars vegar í notkun tölvutækninnar í þágu tungumálsins; hins vegar í notkun tungumálsins í þágu tölvutækninnar. Vísindavefurinn.

Ef þróunin verður svipuð hér á landi og erlendis varðandi raddstýrða hjálp þá er íslenskan eyland. Með öðrum orðum þá munu samskipti notenda vera á öðru tungumáli en íslensku, líklega ensku. Einhver umræða hefur verið um þessa þróun hér á landi og að einhverju leyti hefur verið brugðist við henni en hvernig þeim verkefnum miðar er ekki gott að segja. Verkefnið Almannarómur var til að mynda sett á laggirnar árið 2014 í því augnamiði að tryggja að máltæknilausnir verði smíðaðar fyrir íslensku en hvar þetta verkefni er statt í dag er óljóst. Staðan er einfaldlega sú að tæki skilja ekki íslensku og því mikið og kostnaðarsamt verkefni framundan ef við viljum koma íslenskunni inn í tæknivæddann nútímann og forðast stafrænan dauða tungumálsins.


Hvað þýðir aukin raddstýrð leit fyrir íslensk fyrirtæki?

Ef raddstýrð leit á íslensku er ekki í boði, þá munu flestir að öllum líkindum grípa til enskunnar til að afla sér upplýsinga með hjálp leitarvéla. Hvað þýðir það fyrir íslensk fyrirtæki? Ef upplýsingar á vefsíðum fyrirtækja eru eingöngu á íslensku, þá kemur það niður á sýnileika í leitarniðurstöðum. Þegar undirritaður gerði óformlega tilraun og spurði Siri hvar hægt væri að kaupa SIM kort á Íslandi, þá vísuðu almennu leitarniðurstöðurnar meðal annars á greinar á þar sem fjallað var um roaming, umræðu á Trip Advisor og spjall á Reddit, allt auðvitað á ensku. Vefsíður á íslensku voru vart sýnilegar.


Fyrirtæki geta auðvitað keypt auglýsingar samhliða leitarniðurstöðum til að auka sýnileika á leitarvélum, en árangur (hversu ofarlega þær auglýsingar birtast) og kostnaður (Cost Per Click) helst alltaf í hendur við það hversu vel vefurinn er bestaður fyrir það sem leitað er að (leitarvélabestun) og því þarf alltaf að huga að efnistökum á því tungumáli sem notað er við leitina.


Íslenskan stendur því miður höllum fæti þegar kemur að samvinnu tungumáls og tölvutækni og notkun tungumálsins í þágu tölvutækninnar og öfugt. Við erum einfaldlega ekki tilbúin að takast á við þær ótrúlega hröðu breytingar sem eru að eiga sér stað þegar kemur að hagnýtingu tækni og tungumáls. Þróun máltæknilausna á íslensku er gríðarlega mikilvægt hagsmunamál fyrir okkar litla málsvæði og nauðsynlegar til að tryggja framtíð tungumálsins í heimi þar sem talstýrð samskipti við tæki eru jafn sjálfsögð og samræður við vinnufélagana um veðrið eða enska boltann.


Heimilidir og gagnlegir tenglar:



25 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page