top of page

Stóru dagarnir í verslun: Hvernig er best að auglýsa?

  • Writer: Frosti Jónsson
    Frosti Jónsson
  • Nov 10
  • 3 min read

Updated: Nov 17

Nóvember og desember eru tími verslunar. Jólaverslunin er hægt og bítandi að fara á fullt og stærstu verslunardagar ársins eru framundan, fyrst dagur einhleypra (Singles Day) 11. nóvember, þá Svartur föstudagur (Black Friday, síðasti föstudagur nóvember mánaðar) og svo Cyber Monday (fyrsti mánudagur desember mánaðar).


Dagur einhleypra

Single´s Day (11.11) á uppruna sinn í Kína og er stærsti verslunardagur ársins í heiminum, stærri en samanlögð sala á Svörtum föstudegi og Cyber Monday. Tilurð Single´s Day má rekja til ársins 1993 þegar einhleypum nemendum við háskólann í Nanjing í Kína fannst nóg komið af hátíð elskenda og vildu einhverskonar Valentínusardag fyrir einhleypa. Uppátækið vatt hratt upp á sig tók að breiðast út um allan heim og er nú orðinn gríðarlega stór viðburður í verslun, sá stærsti í heiminum eins og áður hefur komið fram. Fyrirtæki á Íslandi hafa í vaxandi mæli látið til sín taka á þessum degi með hvers kyns tilboðum þó dagurinn sé trúlega ekki jafn viðamikill í verslun og þjónustu og hann er í Kína eða Bandaríkjunum.


Black Friday og Cyber Monday

Flestir hafa trúlega heyrt talað um Black Friday, Svartan föstudag, en þetta er einn af stærstu verslunardögum ársins. Nafnið má rekja til lögreglunnar í Fíladelfíu í Bandaríkjunum um og eftir 1950 sem notaði það til að lýsa almennri ringulreið sem skapaðist í borginni að lokinni Þakkargjörðarhátíðinni. Síðar meir notuðu smásalar hugtakið til að lýsa ánægju sinni með aukna sölu í aðdraganda jóla, þegar rekstur verslana fór úr rauðu (tapi) yfir í svart (hagnað). Svartur föstudagur eins og við tengjum við hann í dag má rekja til níunda áratugarins þegar verslanir hófu að gera þessum degi sérstaklega hátt undir höfði með ofur-tilboðum og miðnætur-opnunum með tilheyrandi ringlulreið, eitthvað sem lögreglunni í Fíladelfíu hefði ekki fundist skemmtilegt við að eiga.


Cyber Monday er mánudagurinn eftir Þakkargjörð og er næst stærsti verslunardagur ársins í heiminum, næstur á eftir Single´s Day ef horft er til verslun á netinu. Hugtakið kemur fyrst fram í fréttatilkynningu Shop.org (NRF) árið 2005 og hefur fest sig í sessi síðan þá.Cyber Monday þótti líka henta betur en fyrri tillögur svo sem Black Monday (tenging við Black Friday) en þótti minna full mikið á hrun fjármálamarkaða í Bandaríkjunum 1987.


En hvernig er best að auglýsa?

Það er ýmislegt sem auglýsendur þurfa að hafa í huga þegar kemur að auglýsingabirtingum í kringum þessa daga. Áskoranir auglýsenda eru einkum tvíþættar: Í fyrsta lagi er auglýsingaáreitið mikið og í öðru lagi þarf að ná mikilli dekkun (e. reach) á skömmum tíma.


Auglýsendur keppast um að koma á framfæri hvers kyns tilboðum og söluhvötum á dögum sem þessum. Auglýsingaáreiti er mikið og það getur því verið hægara sagt en gert að standa upp úr öllu auglýsingakraðakinu og ná athygli neytenda. Auglýsingarnar þurfa auðvitað að fanga athygli fólks og koma skilmerkilega á framfæri hvað er í boði en þurfa jafnframt að vera í samræmi við ímynd vörumerkis. Eftirtekt (ná athygli fólks) er ekki nægjanleg ein og sér til að skila árangri eins og lesa má um hér. Það er því ekki endilega skynsamlegt að setja auglýsingar í loftið bara til að vera með, það þarf að huga vel að framsetningu og inntaki auglýsinganna.


Dekkun (e. reach) segir til um hversu hátt hlutfall af markhópnum við getum eða þurfum ná til með auglýsingum innan tiltekins tímabils. Í kringum daga eins og þessa þá þurfa auglýsendur að ná í tiltölulega stóran hóp fólks (há dekkun) á skömmum tíma. Auglýsendur þurfa því að huga vandlega að vali á miðlum (miðlasamsetningu) sem skilar hámarks dekkun með sem hagkvæmustum hætti, fjöldi birtinga segir sáralítið til um árangur eða gæði, magn er ekki sama og gæði. Að öllu jöfnu er árangursríkara að nota fleiri miðla en færri og setja ekki öll eggin í sömu körfuna.

Comments


bottom of page