top of page
  • Writer's pictureFrosti Jónsson

Áskoranir á auglýsingamarkaði

Í grein sem við birtum á vef Birtingahússins í nóvember 2020, fyrir um þremur árum síðan, vörpuðum við fram þeirri spurningu hvort útgáfa dagblaða væri tímaskekkja. Ástæðan var fyrst og fremst mikill samdráttur í lestri dagblaða og minnkandi hlutdeild á auglýsingamarkaði. Þrátt fyrir breytta hlutdeild prentmiðla á auglýsingamarkaði og minnkandi lestur þá er fjarri því að hægt sé að afskrifa þessa miðla í birtingaáætlunum fyrirtækja. Val og notkun miðla fer eftir því í hverja við þurfum að ná hverju sinni og hvers konar skilaboð við viljum koma á framfæri.


Fjölmiðlar koma og fara

Endalok Fréttablaðsins sem hætti útgáfu í 1. apríl á þessu ári markaði kaflaskil á íslenska fjölmiðla- og auglýsingamarkaðinum. Fréttablaðið var um árabil öflugur og leiðandi fjölmiðill með mikinn lestur, en um 90% landsmanna lásu eða flettu blaðinu þegar best lét (2007). Árið 2020 var þetta hlutfall komið niður í um 54%. Samhliða hefur hlutdeild prentmiðla á auglýsingamarkaði breyst mikið. Árið 2007 var hlutdeild prentmiðla um 60% en árið 2021 var þessi tala komin niður í ríflega 30% samkvæmt tölum Hagstofunnar (auglýsingatekjur ásamt kostun á verðlagi hvers árs).

Velta fjölmiðla á Íslandi - Birtingahúsið

Áskoranir

Brotthvarf Fréttablaðsins og minnkandi lestur á prentmiðlum heilt yfir, þýðir að margir auglýsendur hafa þurft að endurskoða birtingaáætlanir og finna aðrar leiðir og miðla til að ná í sína markhópa. Fjölmiðlanotkun breytist og ef við skoðum lestrartölur er mjög greinilegur kynslóðamunur. Þeir sem eldri eru lesa dagblöð í meiri mæli en þeir sem yngri eru.

Meðallestur dagblaða á Íslandi - Birtingahúsið

En það eru fleiri áskoranir fyrir auglýsendur. Fjölmargir auglýsendur hafa reitt sig á dreifingu fjölpósts en nú er ljóst að Pósturinn mun hætta dreifingu á fjölpósti 1. janúar 2024. Margir auglýsendur hafa nýtt sér fjölpóst til að ná til fjöldans og að mati sumra auglýsenda mun það draga úr sölu ef hætta þarf dreifingu á bæklingum með þessu móti. Til að bregðast við þessu þurfi annaðhvort að finna nýjar leiðir til að dreifa fjölpósti eða nýta aðra miðla til að koma skilaboðum auglýsenda á framfæri og viðhalda þeirri dekkun sem mögulega glatast.


Breytt landslag

Fjölmiðlaflóra er sífellt að breytast sem og fjölmiðlanotkun. Það sem einu sinni virkaði vel gerir það ekki endilega lengur og auglýsendur þurfa að taka tillit til þess við mótun boðmiðlunarstefnu fyrirtækja, með öðrum orðum hvar á að birta, hvenær á að birta og hversu mikið á að birta. Val á miðlum í birtingaáætlunum tekur alltaf mið af (eða á að minnsta kosti að gera það) markhópnum og þeim markmiðum sem unnið er eftir. Breytingar á útgáfu og lestri dagblaða og dreifingu fjölpósts er kallar mögulega á breyttar áherslur í birtingaplönum en getur um leið verið hvati til að endurskoða áherslur og nota aðra miðla öðruvísi og jafnvel betur.


Recent Posts

See All
bottom of page