Netflix er stærsta streymisveita (sjónvarpsveita) í heimi með yfir 220 milljónir áskrifenda. Saga Netflix hefur verið ævintýri líkust frá því að fyrirtækið var stofnað árið 1997. Netflix hefur verið leiðandi í streymisþjónustu frá 2007 og er eitt af stærstu afþreyingar- og fjölmiðlafyrirtækjum heims.
Það eru eflaust margar ástæður sem skýra velgengni Netflix en fyrirtækinu hefur tekist með eindæmum vel að mæta þörfum neytenda með auknu aðgengi að fjölbreyttu sjónvarpsefni á forsendum notenda. Aukin samkeppni frá sjónvarpsveitum á borð við Amazon Prime, Apple TV+, Disney+ hefur þó dregið nokkuð úr vexti fyrirtækisins og í fyrsta sinn hefur áskrifendum Netflix fækkað tvo ársfjórðunga í röð.
Til að bregaðst við aukinni samkeppni, fækkun áskrifenda og lykilorðadeilingum áskrifenda hyggst Netflix bjóða uppá ódýrari áskriftaleiðir með auglýsingum í dagskrárefni. Þetta er stórt skref fyrir Netflix að stíga sem hefur í gegnum tíðina lofað notendum sínum auglýsingafríu sjónvarpsefni.
Netflix velur Microsoft til samstarfs
Það er alltaf eftirtektarvert þegar stórir aðilar eins og Netflix stíga inn á auglýsingamarkaðinn ekki síst í ljósi þess hversu sterk staða Netflix er en það er ekki síst áhugavert að skoða hverja fyrirtækið kallar til samstarfs. Netflix hefur valið Microsoft sem samstarfsaðila en miðlun auglýsinga á veitunni verður, ef marka má yfirlýsingu frá Netflix, einungis í boði sem hluti af auglýsingalausnum Microsoft (Microsoft Adserving Platform). Þetta er því bæði stórt skref fyrir Netflix en ekki síst tækifæri fyrir Microsoft að gera sig meira gildandi á auglýsingamarkaði en fyrirtækið hefur starfað í skugganum af Google þegar kemur að miðlun auglýsinga. Það verður áhugavert að fylgjast með hvernig Netflix reiðir af í þessu nýja umhverfi en aðrar streymisveitur bjóða nú þegar uppá áskriftir með eða án auglýsinga svo sem Hulu og Peacock.
Hvenær þessi möguleiki muni standa íslenskum auglýsendum til boða er svo annað mál, við verðum bara að bíða og sjá til. Engu að síður, ætti þessi breytta stefna Netflix að vera hvati fyrir íslenskar sjónvarpsveitur að bæta þjónustu við auglýsendur, hvort sem það snýr að aðgengi auglýsenda og birtingahúsa að þeim, innleiðingu aukinnar sjálfsþjónustu í auglýsingakaupum og árangursmælingum.
Samkeppni á streymismarkaði
Erlendar streymisveitur hafa vafalítið haft mikil áhrif á innlenda fjölmiðla og möguleika þeirra til að afla sér tekna í formi áskrifta. Fyrirhugaðar áætlanir Netflix hljóta að vekja áhuga, bæði auglýsenda og innlendra fjölmiðla í ljósi vinsælda Netflix hér á landi. Innlendir fjölmiðlar þurfa einnig að fylgjast náið með þeirri þróun sem er að eiga sér stað þegar kemur að miðlun og sjálfsafgreiðslu auglýsinga á streymisveitum almennt og möguleikunum sem felast í því fyrir auglýsendur og miðlana sjálfa.
Netflix er langstærsta sjóvarpsveitan á Íslandi og hefur nokkuð yfirburða stöðu gagnvart helstu keppinautum eins og Disney +, HBO Max, Hulu og Apple TV en staða Netflix er einnig sterk gagnvart innlenum sjónvarpsveitum eins og Sjónvarpi Símans og Stöð 2+. Ríflega 70% landsmanna eru með Netflix áskrift en það er töluvert hærra hlutfall en þeir sem eru með áskrift að Sjónvarpi Símans Premium (47%) eða Stöð 2 + (30%) ef marka má niðurstöður Gallup.
Hvað er framundan
Íslenskar sjónvarpsveitur hafa að einhverju leiti brugðist við þessari miklu samkeppni erlendis frá með aukinni áherslu á að framleiða innlent sjónvarpsefni sem ekki er í boði annarsstaðar, leikið efni sem og heimildar og fræðsluefni. Innkoma Netflix á íslenskan auglýsingamarkað yrðu alltaf stór tíðindi og í takt við þá þróun sem hefur átt sér stað undanfarin og með aukinni hlutdeild fyrirtækja eins og Facebook og Google á íslenskum auglýsingamarkaði. En svo lengi sem innlendum efnisveitum tekst að mæta þörfum og kröfum íslenskra neytenda, þá er framtíðin björt, bæði fyrir efnisveiturnar og auglýsendur.
Heimilidir og ítarefni
https://finance.yahoo.com/news/10-biggest-online-streaming-companies-132158475.html https://www.cnn.com/2022/07/19/media/netflix-earnings/index.html https://www.npr.org/2022/07/19/1112335543/netflix-second-quarter https://finance.yahoo.com/news/10-biggest-online-streaming-companies-132158475.html https://www.insidermonkey.com/blog/5-biggest-online-streaming-companies-in-the-world-1041698/5/ https://blogs.microsoft.com/blog/2022/07/13/netflix-names-microsoft-as-partner-for-new-consumer-subscription-plan/
Comments