top of page
  • Writer's pictureFrosti Jónsson

Myndbönd og leitarvélabestun

Þegar kemur að leitarvélabestun (SEO) eru fjölmargir þættir sem þarf að hafa í huga en í stuttu máli snýst slík vinna um að fá vefsíðu til að birtast eins ofarlega í leitarniðurstöðum og mögulegt er - því ofar, því betra. Ekki er hægt að taka eitthvað eitt út fyrir sviga þegar kemur að leitarvélabestun þó ákveðnir þættir vegi þyngra en aðrir og ekki er um neinar töfralausnir að ræða. Hinsvegar er hægt að auka líkur á árangri með samstilltum aðgerðum með langtíma markmið að leiðarljósi


Eigum við að nota myndbönd?

Við fáum mikið af góðum spurningum varðandi leitarvélabestun og snýr ein þeirra um notkun hreyfimynda (videó). Notkun þeirra á vef getur verið snjöll leið til að bæta vefsíðu m.t.t. leitarvélabestunar, en þetta er eflaust nokkuð vannýtt leið og byggir sú fullyrðing meira á tilfinningu en gögnum. Þegar talað er um myndband er oft ekki gerður greinarmunur á því hvort það sé “embeddað” af öðrum miðlum eins og YouTube, Facebook eða Vimeo, eða hýst á eigin vefsvæði fyrirtækis. Þessu fylgja kostir og gallar en það er ekki til umfjöllunar hér.


Tímalengd heimsókna

En hvernig getur notkun á myndbandsefni á vef haft jákvæð áhrif á leitarvélabestun? Gott myndband, sem hluti af efni á vefsíðu, og fangar athygli notenda getur þannig haft áhrif til góðs vegna þess að fólk dvelur lengur á lendingarsíðunni en ella sem er jákvætt.


Fleiri deilingar og fleiri heimsóknir

Þá eru nokkur góð dæmi um myndbönd sem ná flugi, þeim deilt víða sem verður til þess að umferð verður meiri inn á vefsíðuna og frá fleiri stöðum, hvort sem það er hýst á vef eða deilt á öðrum miðlum. Þá eru fjölmörg dæmi um að myndbönd, sem ná athygli og dreifingu, skili sér í aukinni umfjöllun um vörumerki sem síðan hefur áhrif á áhuga fólks til að kynna sér vörumerkin betur, heimsækja vef eða leita að því í leitarvélum.


Dollar Shave Club er athyglisvert dæmi um þetta en fyrirtækinu tókst að gera skemmtileg myndbönd sem vakti eftirtekt og fékk gríðarlega mikið áhorf og deilingar en vinsælasta auglýsingin þeirra hefur fengið um 26 milljón áhorf (view) á YouTube. Gott dæmi um árangursríkt myndbandsefni sem hefur skilað fyrirtækinu umtalsverðri dekkun, skapað vitund og skilað heimsóknum og umferð inn á vef vörumerkis.


Það hafa allir skoðanir á því hvað er gott efni og hvað ekki. Gögnin sem við höfum yfir að ráð geta hinsvegar svarað þessari spurningu fyrir okkur en birtingamynd þess að vera með gott efni í höndunum sem vekur eftirtekt leynir sér ekki. Vörumerki á borð við Red Bull og Monster Energy hafa nýtt sér myndbönd mjög markvisst í markaðssetningu og áhorf á auglýsingar og markaðstengt efni skiptir milljónum.


Auka myndbönd sölu

Það er mikilvægt að hafa í huga að samspil miðla í markaðsstarfi og áhrif þeirra á sölu er flókið. Áhrifin geta verið bein og óbein og allt þar á milli. Myndbönd geta hjálpað fyrirtækjum að skapa vitund og staðfæra vörumerki en þau geta einnig styrkt tengsl og jákvæða upplifun við vörumerki (engagement) sem getur svo haft jákvæð áhrif á að fólk klári kaup. “Content is king” var haft eftir Bill Gates árið 1996 og það eru orð sem sannarlega eiga ennþá við í dag. Neytendur gera kröfur og nenna ekki að horfa á hvað sem er. Gott efni er gulli betra og það á ekki að skera við nögl við framleiðslu á því.


Gott að hafa í huga

Það er ágætt að hafa í huga við framleiðslum á auglýsingum sem t.d. á að birta á YouTube að vanda framleiðslu og huga að gæðum efnisins. Myndbönd þurfa ekki endilega að vera stutt, þvert á móti eru myndbönd í stafrænum miðlum snjöll leið til að koma eiginleikum vöru og ávinningi vörumerkis á framfæri án þess að skera lengd þeirra við nögl. Það eru að sjálfsögðu takmörk fyrir þolinmæði neytenda, en það að fólk hætti að horfa hefur trúlega meira með gæði frekar en lengd að gera.


Í herferðum okkar viðskiptavina höfum við séð hátt hlutfall fólks hætta að horfa á stutt myndbönd fljótlega eftir að spilun þeirra hefst og við höfum séð hátt hlutfall fólks horfa á myndbönd til enda þrátt fyrir að vera í lengri kantinum. Það er þó ágætis regla að koma lykilskilaboðum á framfæri á upphafssekúndum eins og hver er að auglýsa og hvað.

Recent Posts

See All
bottom of page