Birtingahúsið í aldarfjórðung
- Frosti Jónsson
- Sep 22
- 3 min read
Birtingahúsið er 25 ára á þessu ári. Frá því að starfsemi hófst um síðustu aldamót hefur mikið vatn runnið til sjávar og gífurlegar breytingar átt sér stað á auglýsingamarkaði. Fjölmiðlavelta hefur aukist jafnt og þétt á sama tíma og hlutdeild fjölmiðla hefur tekið stórkostlegum breytingum. Nýir fjölmiðlar hafa litið dagsins ljós, innlendir fjölmiðlar eru í harðri samkeppni við erlenda fjölmiðla sem skýra að mestu aukningu í veltu á innlendum auglýsingamarkaði undanfarin áratug eða svo.

Við stofnun Birtingahússins, fyrsta birtingahúss landsins, var markmiðið að bjóða auglýsendum faglega ráðgjöf um auglýsingabirtingar byggða á rannsóknum. Á þeim tíma var ekki skýr aðgreining á milli birtingaráðgjafar og auglýsingagerðar og þótti slík nálgun fremur róttæk á fremur vanþróuðum íslenskum auglýsingamarkaði.
Auglýsendur höfðu loksins val um að velja sér bæði bestu auglýsingastofuna og bestu birtingaráðgjöfina, þar sem þetta tvennt fór ekki endilega saman. Þetta var því mikið framfaraskref að mati Samtaka auglýsenda (SAU) á þeim tíma. Nú var ekki lengur spurt „hversu mikið?“ heldur byrjað á að skilgreina markhópinn og ákveða dekkun og tíðni. Síðan var fundin hagkvæmasta leiðin til að ná til hans. Þekking á virkni og notkun fjölmiðla þótti hins vegar ábótavant og sá hluti markaðsstarfsins sem sneri að auglýsingabirtingum fékk litla athygli, þrátt fyrir að stór hluti markaðsfjár færi í birtingar. Aðgengi að gögnum var ábótavant, fjölmiðlarannsóknir skorti og árangursmælingar auglýsingabirtinga voru vart til staðar. Tilkoma Birtingahússins og birtingahúsa almennt var auðvitað mikið hitamál á sínum tíma og sitt sýndist hverjum. Sem betur fer hefur margt breyst til hins betra og birtingahúsin hafa löngu sannað verðmæti sitt.
Einfalt verður flókið
Þegar Birtingahúsið var stofnað var samsetning fjölmiðla í birtingaáætlunum frekar einföld í samanburði við það sem við vinnum með í dag. Samkvæmt tölum Hagstofunnar fór 94% birtingafjár í dagblöð, útvarp og sjónvarp aldamótaárið 2000. Hlutdeild þessara miðla var 32% árið 2023 (erlendir miðlar inni í þessum veltutölum).

Birtingahúsið hefur ávallt sett sér það markmið að vera leiðandi á sínu sviði og fylgjast vel með því sem er að gerast í löndunum í kringum okkur. Eftir um árs langan undirbúning settum við til dæmis Netdeild Birtingahússins á laggirnar árið 2011 til að hafa sérstakan fókus á það sem var að gerast á netinu, innleiða lausnir og veita viðskiptavinum okkar betri þjónustu þegar kemur að því að nýta netmiðla í markaðssetningu. Á þeim tíma var hlutdeild netmiðla á Íslandi innan við 10% (á meðan hlutdeild netmiðla var 18-25% á í Skandinavíu) og íslensk fyrirtæki almennt ekki að nýta sér netmiðla með markvissum hætti.
Horfum fram á veginn
Birtingaráðgjöf og þjónusta Birtingahússins hefur tekið miklum breytingum á þessum 25 árum og enn og aftur stöndum við frammi fyrir nýjum áskorunum, t.d. með tilkomu gervigreindar, AI. Frá því að við birtum grein um gervigreind fyrra hluta ársins 2023 hefur notkun á vinsælustu gervigreindartólunum aukist gríðarlega. Í janúar 2023 voru notendur ChatGTP um 100 milljónir en í ágúst á þessu ár voru notendurnir um 755 milljónir (74% markaðshlutdeild) og rúmlega 800 milljónir ef Copilot frá Microsoft er talið með.
Breytingar eru óumflýjanlegar. Það er okkar hlutverk að fylgjast vel með tileinka okkur nýjar lausnir og nálganir með hagsmuni viðskiptavina okkar að leiðarljósi, hverjar svo sem þessar breytingar eru. Lykillinn að því að ná árangri er að vera á tánum, vera opin fyrir nýjungum og þora að stíga út fyrir þægindaramman. Í eina tíð þótti nóg að birta heilsíðu auglýsingu í einhverjum af vinsælustu dagblöðum landsins. Nú er öldin önnur.
Comments