Birtingahúsið_Straumar_Auglýsingar

Carat, sem er alþjóðlegur samstarfsaðili Birtingahússins, gaf á dögunum út Trend report fyrir árið 2019. Carat hefur síðastliðin tíu ár gefið út skýrslu um strauma og stefnu komandi árs sem hefur verið leiðarvísir fyrir vörumerki til að átta sig á þeim öru breytingum sem hafa verið að eiga sér stað í tækni og markaðsmálum.

Á þessu ári mun hraði og geta nettenginga, sérstaklega fyrir snjallsíma, taka miklum breytingum með tilkomu 5G og mælt er með því að fyrirtæki spyrji sig eftirfarandi spurninga:

  • Ættum við að þróa nýjar vörur eða þjónustu fyrir tengdari heim?
  • Búum við yfir réttum tæknibúnaði til að takast á við heiminn þar sem snjalltæki munu búa yfir miklu meiri hraða en áður hefur þekkst?
  • Á hvaða markaði, þjónustu eða vörur mun þessi aukni hraði hafa mest áhrif á?
  • Hversu mikið þarf að breyta nálgun vörumerkis á upplifun neytandans á öllum stigum kaupferlis?
  • Mun þessi aukna og hraðari tenging breyta því hvað og hvernig við mælum hlutina?

Sölusamhengi (e. Contextual Commerce)

Samfélagsmiðlar eru að færast frá því að vera markaðstól yfir í að vera sölutól. Nú er hægt að merkja vörur inn á mynd og fá upplýsingar um vöruheiti og verð, smella á merkimiðann (e. tag) og fara beint inn á vefverslun til að versla vöruna. Fyrirtæki eins og H&M hafa verið að nýta sér þetta á Instagram með góðum árangri erlendis en er eins og staðan er í dag ekki í boði fyrir íslensk fyrirtæki en hægt er að fá undanþágu ef Instagram aðgangur fyrirtækisins uppfyllir ákveðin skilyrði. Carat gerir ráð fyrir að sala muni í vaxandi mæli fara fram á vettvangi þar sem fólk leitar eftir afþreyingarefni. Það mun skapa mörg ný tækifæri til að selja fólki en verður um leið ákveðin áskorun þar sem varan þarf að keppa við allt annað á síðunni. Með vaxandi sölu á samfélagsmiðlum aukast tækifæri til að deila fréttum um kaup og stofna jafnvel til hópkaupa þar sem “verðið lækkar um 10% ef við getum selt 200 stykki á næstu 10 mínútunum”. Einnig gefur þetta færi á að að tengja sölu við ákveðna viðburði sem sýnt er frá eða fjallað er um á samfélagsmiðlum. Áhrifavaldar munu tengja fólk beint inn á sölusíður og má leiða líkum að því að breytingar verði á þóknunum þeirra. Minna verði um að þeim verði borgað beint fyrir kynningar heldur fái þeir borgað miðað við sölu sem fer í gegnum þá.

Upplifunarverslun (e. Experiential eCommerce)

Reynt verður að auka upplifun með vefverslun með því að nýta viðbótarveruleika (e. Augmented reality) og beinar vídeóútsendingar í markaðssetningu og sölu. Með því skapast mörg tækifæri til að sýna virkni vörunnar og færa hana nær neytandanum. IKEA hefur boðið upp á Place smáforritið þar sem hægt að er máta vörur úr vörulistanum inn á heimilið. Dominos var með herferð þar sem snapchat filter setti pizzukassa á borðið og ef þú smelltir á kassann var hægt að panta pizzu. Einnig var boðið upp á að búa til sína eigin pizzu í gegnum viðbótarveruleikann og síðan pantað hana. Til að bregðast við vaxandi sölu á vefnum hafa venjulegar verslanir verið að bæta upplifun neytenda þegar komið er í búðina og hafa margir skemmtilegir og áhugaverðir hlutir verið prófaðir. Sem dæmi setti Canada Goose upp mátunarklefa sem er með hitastig undir frostmarki. Story, verslun í New York sem er í eigu Macy’s, skiptir um þema í versluninni á 6-8 vikna fresti til að bjóða viðskiptavinum upp á nýjar upplifanir í hvert sinn sem þeir heimsækja hana. Apple verslanir eru með viðburði eins og tónleika og ný leikfangaverslun í New York, Camp, er með rými þar sem viðskiptavinir geta tekið myndir af vörunum til að deila á samfélagsmiðlum.

Leikið sér með skilaboð (e. Games in Messaging)

Skilaboðaþjónusta mun verða skemmtilegri og skipta fólk enn meira máli. Boðið verður upp á fleiri notkunarmöguleika á kostnað annara smáforrita og stefnt að því að hún verði líkari samfélagsmiðli en skilaboðaþjónustu. Nú eru uppi áform um að sameina skila­boðaþjón­ustu smá­for­rit­ana In­sta­gram, What­sApp og Face­book Messenger í eitt smá­for­rit og verður áhugavert að fylgjast með þeirri þróunarvinnu.

Lífið í áskrift (e. Life as a Service)

Áskriftaþjónustur eins og Netflix, Spotify, Amazon Prime, Storytel, Nespresso og íslensk fyrirtæki sem bjóða upp mataráskriftir eins og Eldum rétt hafa hlotið mikilla vinsælda undanfarið. Í dag geta neytendur verið með áskrift að tónlist, sjónvarpsþáttum, kvikmyndum, hljóðbókum, kaffi, mat, augnlinsum og jafnvel sokkum sem það fær síðan sent heim að dyrum. Þessar þjónustur búa yfir mikið af upplýsingum um viðskiptavininn sem hjálpar þeim ekki bara í markaðssetningu og markhópamiðun heldur einnig til að þróa aðrar vörur og þjónustur sem eru klæðskerasniðnar að áhugasviði og þörfum neytenda. Nú er talið að þetta muni halda áfram að eflast og þróast og að neytendum verði í auknum mæli boðið að gerast áskrifendur af ákveðnum lífstíl sem henti þeim. Bæði er þetta hagkvæmara fyrir fyrirtækin og neytendur. Fyrirtækin fá fastar tekjur á meðan neytandinn fær betri kjör gegn því að binda sig í ákveðinn tíma.

Vertu í klúbbnum (e. ‘By Invation’)

Vildarklúbbar vörumerkja þar sem viðskiptavinir fá njóta sérstaka kjara og tilboða njóta vaxandi vinsælda. Það nýjasta eru einkaklúbbar sem tengjast vörumerkjum þar sem fólk þarf að fá sérstakt boð til að fá aðgang að t.d Instagram síðu, lokaðri Facebook grúbbu eða App’i. Með því að senda viðskiptavinum sérstakt boð fær það viðskiptavininn til að líða eins og hann sé sérstakur að fá að vera með í “klúbbnum” og fá aðgang að sérstökum tilboðum eða sérsniðnum vörum sem ekki er hægt að bjóða öllum fjöldanum.

Snjallir útimiðlar (e. Smart Out Of Home)

Fyrirtækið Buzz mun á þessu ári bjóða upp á birtingar á stafrænum skjám í strætóskýlum í Reykjavík. Þetta er spennandi nýjung sem vonandi ýtir undir skapandi hugsun í markaðssetningu og eykur möguleika að ná til fólks á mismunandi stöðum, á mismunandi tímum. Það má einnig nýta þessa nýju tækni til að gera heiminn að betri stað. Sem dæmi hafa Svíar nota þessa tækni til að leiðbeina heimilislausum og benda þeim á gistiskýli þegar kólnar í veðri.

Hannað út frá gögnum (e. Design from Data)

Nú eru gögn ekki bara notuð til að fá innsýn inn í herferðir og markhópagreiningar heldur eru þau í vaxandi mæli nýtt við þróun og hönnun á nýjum vörum og þjónustu. Netflix nýtir sér gögn til að skoða hvernig sjónvarpsþætti og kvikmyndir þeir eiga að framleiða og skemmtilegt dæmi um þetta er þegar hljómsveitin Metallica nýtti sér gögn frá Spotify til að útbúa mismunandi lagalista eftir borgum á tónleikaferð sinni um Bandaríkin og þannig höfðað betur til aðdáenda sinna á hverjum stað.

Markhópamiðun eftir breytingu á persónuverndarlögum (e. Targeting post GDPR)

Gera má ráð fyrir að takmarkanir í markhópamiðun (e. targeting) vegna nýrra persónuverndarlaga leiði til þess að auglýsingar og vörumerki komi til með að þurfa leggja meiri áherslu á samhengi í sinni markaðssetningu og að finna rétta tímapunktinn til að koma skilaboðunum á framfæri. Leggja þarf meiri áherslu á að finna nýjar leiðir til að mæla hvernig viðskiptavinurinn bregst við mismunandi efni (e. content) og hvernig auglýsingar virka í ákveðnu samhengi (e. context) svo hægt verði að greina hvort og hvernig þær eru að ná í gegn.

Tilkoma 5G (e.The Advent of 5G)

Með tilkomu 5G verður gagnanotkun aðgengilegri, tenging betri og mun hraðari. Þetta kemur sér vel fyrir vörumerki sem nýta sér videó efni til að segja sögur í markaðssetningu sinni. 5G mun verða aðgengilegt í borgum um allan heim og er gert ráð fyrir að það verði 20x hraðavirkara en 4G. Með þeim hraða er hægt að hlaða niður 2 tíma bíómynd á innan við fjórum sekúndum.

Stafræn hreinsun (e. Digital Detox)

Snjallsímanotendur eiga nú auðveldara, með eiginleikum eins og Screentime, að fylgjast með skjánotkun sinni, skammta sér tíma á ákveðnum miðlum og stýra betur samfélagsmiðlanotkun og annarri skjánotkun. Samkvæmt rannsókn GlobalWebIndex reyndu 20% fólks í Bretlandi og Bandaríkjunum að minnka skjánotkun sína árið 2018 og 50% reyndu að draga úr skjánotkun. Frankie & Benny’s, veitingahúskveðja í Bretlandi, banna símanotkun og er líklegt að fleiri veitingahús skoði þann möguleika. Einhverjir skólar eru farnir að taka fyrir símanotkun og er hún bönnuð í skólum í Frakklandi. Skólastjórnendur þar í landi segja það hafa gefist vel, börnin hafi verið fljót að aðlagast breytingunum og séu nú farin að tala við hvort annað.

Það verður spennandi að fylgjast með hvað af þessum nýju straumum munu ryðja sér til rúms árið 2019 en í fyrra rættist 8 af 10 spám sem Carat kom fram með í síðustu Trend report fyrir árið 2018. Við hjá Birtingahúsinu fylgjumst vel með nýjungum í markaðssamskiptum og viljum vera leiðandi á því sviði og veita viðskiptavinum okkur góða þjónustu og ráðgjöf í að takast á við sífellt flóknari auglýsingaheim.

Elfa Sif Logadóttir