Markaðs- og birtingasérfræðingarnir Ívar Gestsson og Jón Heiðar Gunnarsson héldu á dögunum til Kölnar í Þýskalandi á Dmexco-ráðstefnu til að kynna sér nýjustu strauma í stafrænni markaðssetningu. Á ráðstefnuna mættu margir af fremstu sérfræðingum heims á þessu sviði og deildu reynslu sinni. 

Sheryl Sandberg framkvæmdastjóri Facebook var þar á meðal en hún er launahæsti starfsmaður fyrirtækisins. Hún gekk til liðs við Facebook árið 2008 og er sögð hafa umbreytt miðlinum í það stórveldi sem hún er í dag. Samhliða fjölmörgum fyrirlestrum í Köln fór einnig fram risastór vörusýning þar sem öll stærstu stafrænu fyrirtæki heims voru samankomin ásamt mörgum minni aðilum. Þar má t.d. nefna fyrirtækin Google, Snapchat, Twitter, Facebook, Linkedln, Pinterest og Spotify.

Eftir að hafa kynnt sér allt það helsta á ráðstefnunni þá eru félagarnir Ívar og Jón sammála um að helstu tækifærin í stafrænum markaðsmálum séu að finna í sýndarveruleika og gervigreind af ýmsu tagi. Möguleikarnir á þeim sviðum eru nánast óþrjótandi en margir fyrirlesarar áttu erfitt með að halda sér á jörðinni í umfjöllun sinni um málið og sumir gengu meira að segja svo langt að bjóða gestum bókstaflega upp á flug í sýndarveruleika. Að mati Ívars og Jóns er gríðarlega mikilvægt fyrir fyrirtæki að huga vel að öllu því sem snýr að stafrænni markaðssetningu á næstu árum til að lenda ekki undir í samkeppni. Reynslan hefur sýnt að margir auglýsendur eigi erfitt með að aðlagast nýjum stafrænum veruleika enda hefur þróunin verið mjög hröð í þessum málaflokki síðustu misseri. Ívar og Jón taka heilshugar undir orð Sandberg sem sagði mikilvægt fyrir stjórnendur vörumerkja að breyta hugsunarhætti sínum frá því að reyna eingöngu að „lifa af“ í stafrænum veruleika yfir í að finna leiðir til að „dafna“ þar.

Hér má sjá myndband frá ráðstefnunni: https://www.facebook.com/dmexco/videos/1919675494714909/