Málstofa Birtingahússins um þróun auglýsingamarkaðrins

Í lok nóvember héldum við málstofu þar sem kynnt var það helsta sem er í gangi á auglýsingamarkaðinum. Væntingar til komandi árs, þróun og árangur, netmarkaðsmál og tækifærin framundan var meðal þess sem farið var yfir og rætt var um. Neytendur hér á landi virðast nokkuð bjartsýnir um sinn hag næstu mánuðina. Talsvert bjartsýnni en gengur og gerist í samanburðarlöndunum.

Auglýsingamarkaðurinn heldur áfram að þróast og breytast. Sveiflurnar mismiklar á milli miðlategunda. Lestur stærstu dagblaða heldur áfram að dragast saman. Netmiðlarnir bæta við sig á móti. Línulegt sjónvarpsáhorf heldur áfram að minnka á meðan svokallað hliðrað áhorf/VOD eykst. Útvarpið er heilt yfir á svipuðum slóðum og verið hefur síðustu árin, auglýsingamiðill sem haldið hefur velli í stafrænni uppsveiflu. Kvikmyndahúsin virðast nokkuð á pari við fyrri ár. Hástökkvarinn er hins vegar umhverfismiðlar (útimiðlar).

Stafrænar lausnir á þeim vettvangi ásamt aukningu á framboði hefur gert það að verkum að þessi boðmiðlunarleið er nú oftar en áður hluti af auglýsingaherferðum. Tækifærin má finna víða og klárt að áfram eru í boði spennandi tímar og sóknarfæri fyrir auglýsendur.

Vel var mætt á fundinn og góður áhugi á því efni sem var til umfjöllunar. Greinilegt að mörg fyrirtæki eru að klára sína áætlanagerð fyrir næstu misserin og því nauðsynlegt að átta sig á landslaginu sem framundan er.