Staðsetning skilaboða og árangur auglýsinga

Þó það sé nokkuð um liðið frá því að Erwin Eprhon setti fram sk. recency kenningu sína snemma á tíunda áratug síðustu aldar þá lifir hún ennþá góðu lífi. Kenning Ephron sem og rannskóknir John Philip Jones1 og fleiri hafa haft mikil áhrif á auglýsinga- og birtingageiran um allan heim en kenningin gengur í stuttu máli út á að stakt áreiti, rétt staðsett, hafi meiri áhrif en magn áreitis. Staðsetning auglýsinga (áreiti) skipti sumsé meira máli en magn auglýsinga.

Fjölmiðlaumhverfið hefur tekið miklum breytingum frá því að Ephron setti fram hugmyndir sínar, en hugmyndir hans eru enn í fullu gildi. Recency kenning Ephron fellur til að mynda vel að mörgu því sem við erum að fást við í dag, auglýsingar á leitarvélum eru til að mynda gott dæmi um það.

Rétt staðsett skilaboð á leitarvélum

Auglýsingar á leitarvélum snúast að öllu leiti um að staðsetja rétt skilaboð sem næst kaupum. Yfirgnæfandi fjöldi fólks nýtir sér leitarvélar á einhverjum tímapunkti og fjöldi þeirra sem versla á netinu er alltaf að aukast. Auglýsingar á leitarvélum snúast um gæði, þ.e. rétt staðsettar auglýsingar með viðeigandi skilaboðum sem næst kaupum. Gæði umfram magn.

Erwin Ephron (1995): If advertising is a weak force, how can a single adv. message produce a strong effect? The key is recency: “When” is more important than “how many”.

Samkeppni um sýnileika er mismikil eftir flokkum og það á einnig við um kostnað. Sumir flokkar eru einfaldlega dýrari en aðrir. Í ferðaiðnaði er háð hörð samkeppni um athygli fólks á leitarvélum og þessi flokkur er einn sá dýrasti m.t.t. smellkostnaðar (CPC). En því ættu ferðaþjónustufyrirtæki og endursöluaðilar (sbr. Hotels.com, booking.com, Expedia og fleiri) leggja svona mikla áherslu á að vera sýnileg á leitarvélum?

Ástæðan er einfaldlega sú að stór hluti ferðamanna velur sér afþreyingu eftir að það er komið á áfangastað. Ef marka má tölur frá Google þá velur um 85% ferðafólks afþreyingu eftir að það er komið á staðinn og um helmingur ferðafólks notar snjallsímann til að leita að afþreyingu eftir að á áfangastað er komið. Þá hafa tæp 80% þeirra sem eru að skipuleggja ferðalög ekki gert upp hug sinn varðandi flugfélag og rúm 80% hefur ekki ákveðið hvar þeir bóka gistingu. Sýnileiki í leitarvélum er því þessum aðilum einfaldlega gríðarlega mikilvægur og rétt staðsett skilaboð sem næst kaupum auka líkurnar á góðum árangri. Recency kenning Ephron lifir ennþá góðu lífi.


1Rannsóknir John Philip Jones og Colin McDonald sýndu fram á að stakt áreiti hafi áhrif á sölu (uplift in sales) og að fyrsta áreiti (one exposure) hafi mun meiri áhrif en þau sem koma á eftir (additional exposures)

Heimildir og ítarefni

https://www.thinkwithgoogle.com/advertising-channels/mobile/travel-trends-2016-data-consumer-insights/

https://www.thinkwithgoogle.com/marketing-resources/micro-moments/get-away-moments-travel-marketing/

https://publications.parliament.uk/pa/ld201011/ldselect/ldcomuni/99/10113002.htm