útvarp

Árið 2013 birtist grein á vef Birtingahússins um útvarpsbirtingar. Þá var farið yfir tekjustýringu útvarpsstöðvanna og hvernig hægt væri að gera hagkvæm kaup í útvarpi. Til upprifjunar er hlekkur inn á greinina hér. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan 2013. Nýir miðlar hafa sprottið upp og notkun hefðbundinna miðla, dagblaða, sjónvarps og útvarps, hefur breyst. Því er ekki úr vegi að kíkja á dekkunar- og verðlagsþróun hjá útvarpsstöðvunum miðað við þær breytingar sem hafa orðið. Til útskýringar er dekkun það hlutfall almennings sem útvarpsauglýsingar ná til.

Forsendur

Líkt og árið 2013 eru forsendurnar eftirfarandi:

 • 15 sek auglýsing
 • Verðin eru skv. verðskrá, án afslátta.
 • Birtingar virka daga fyrstu vikuna í maí.
 • Annars vegar birt kl. 8 að morgni og kl. 17 síðdegis. Dekkun, tíðni og kostnaður reiknaður út frá því.
 • Hinsvegar birt kl. 10 að morgni og kl. 15 síðdegis. Dekkun, tíðni og kostnaður reiknaður út frá því.

Verðþróun útvarpsstöðvanna frá 2013

Á grafinu hér að neðan má sjá verðþróun útvarpsstöðvanna frá árinu 2013. (Sem dæmi sést að auglýsingartími á Rás 2 frá 7:30 – 9.00 hefur hækkað um 34% en tíminn frá 9-12 um 0%. )Hækkunin er mismikil milli útvarpsstöðva og auglýsingatíma. Mest er hækkunin í þeim auglýsingahólfum þar sem mest hlustun er (7:30-9, 12-13 og 16-18) á Rás 2 en einnig hefur Bylgjan hækkað sína verðskrá, nú síðast 3. apríl. FM 957 hefur ekki hækkað verðskrá á tímabilinu. K100 er vísvitandi ekki inni í þessu grafi því hækkunin frá 2013 er 155% á öllum tímum til ársins 2017 og yrði grafið kauðslegt með þá hækkun inni. Það skýrist af því að K100 var með afar lág verð þegar stöðin fór í loftið árið 2010. Þau verð héldu sér allt til ársins 2014. Þá hækkuðu verðin og voru hæst árið 2015. Síðan hafa verðin lækkað lítillega en meðaltalshækkunin er 155% yfir tímabilið. Á sama tíma hefur vísitala neysluverðs hækkað um 7,5% frá árinu 2013.


Yfir tímabilið hefur meðalverðhækkun útvarpsstöðvanna verið sem hér segir:

 • Bylgjan, 8% meðaltalshækkun
 • Rás 2, 16% meðaltalshækkun
 • FM957, engin hækkun.
 • K100, 155% meðalhækkun.

Hlustunarþróun útvarpsstöðvanna frá 2013

Þegar litið er til hlustunarþróunar á sama tímabili má sjá að hún er svipuð og í hinum hefðbundnu miðlunum, í heildina lækkar dekkunin. Munurinn er þó mjög lítill milli 2013 og 2017 eins og sjá má á grafinu hér að neðan.

Samdrátturinn nemur 2-3% á tímabilinu. Slíkt er viðbúið í ljósi fleiri miðla á markaði og þeirrar staðreyndar að sólarhringurinn er enn jafnlangur árið 2017 og hann var árið 2013. Munurinn á dekkun á dýrari og ódýrari útvarpstímum er í kringum 10%. Hlutfallslega skila dýrari tímarnir um 20-30% hærri dekkun en þeir ódýrari.

Samanburður á kostnaði 2013-2017

Ef borinn er saman kostnaður við að auglýsa á sömu tímum árið 2013 og árið 2017 kemur eftirfarandi í ljós. Í grafi hér að ofan sést að dekkun á dýrari tímum er 20-30% hærri, en grafið hér að neðan sýnir að kostnaðurinn á sama tímabili er um 65% hærri. 

Því eru þessi viðbótarprósent sem dýrari tímarnir veita mögulega dýru verði keypt.

Kauptækifæri

Af þessu má sjá að enn eru kauptækifæri á útvarpmarkaði. Ekki þarf alltaf að ná í alla innan vikunnar. Hlutverk okkar sem fagaðila er að kaupa áreiti á sem hagkvæmastan hátt fyrir okkar viðskiptavini. Okkar hlutverk er að leiðbeina viðskiptavinum, sleppa því að kaupa alltaf dýrustu áreitisprósentuna, svo við getum auglýst yfir lengra tímabil og þannig aukið vörumerkjavitund. Með þessu er alls ekki verið að útiloka dýrari tímana. Til dæmis þegar kemur að fyrirtækjum á smásölumarkaði sem auglýsa gjarnan mikið fimmtudag til sunnudags. Þar eru dýrari tímarnir mikilvægir, til þess ná til neytenda sem næst kaupum.

Eingöngu er hér verið að benda á að dekkun og tíðni byggist upp yfir tíma og að með því að kaupa skynsamlega er hægt að spara umtalsverðar fjárhæðir sem nýtast til auglýsingakaupa í öðrum miðlum samhliða eða með því að lengja birtingatímabilið.

Niðurstöður

Ályktanir sem hægt er að draga af þessu eru:

 • Útvarp er enn hagkvæmur auglýsingakostur á þeim stafrænu tímum sem við upplifum.
 • Mikilvægt er að velja tímana vel.
 • Mýtan um það að „allir séu hættir að hlusta á útvarp“ stenst ekki! Mælingar og gögn sýna fram á annað. Með hagkvæmum hætti má ná í um 35% fólks á aldrinum 20-50 ára u.þ.b tvisvar innan vikunnar.

Útvarpsauglýsingar eru ódýrar í framleiðslu, viðbragðstíminn er skammur og því fljótt hægt að bregðast við ef samkeppnisaðili kemur með eitthvað útspil. Fjölmiðlaneysla er heilt yfir að aukast. Fólk notar fleiri miðla en það gerði fyrir örfáum árum. Því er jafnvel enn mikilvægara en áður að nýta sér þekkingu fagaðila til þess að hámarka það auglýsingafé sem fyrirtæki ráða yfir.