Af hverju birtist vefsíðan mín ekki í leitarniðurstöðum? Hvað getum við gert til að vera sýnilegri á leitarvélum? Þetta eru algengar spurningar en flestir stjórnendur fyrirtækja gera sér grein fyrir mikilvægi þess að birtast ofarlega í niðurstöðum leitarvéla. Því ofar, því betra. Leitarvélar (Google, Bing) eru mikilvægur og nánast órjúfanlegur hluti í kaupferlinu og langflestir neytendur nýta sér leitarvélar á einhverjum tímapunkti þegar finna skal upplýsingar um vörur og þjónustu og versla á netinu.

Leitarvélabestun skiptir máli

Leitarvélabestum (Search Engine Optimization) snýst um að hámarka sýnileika í leitarniðurstöðum leitarvéla (náttúrulegar leitarniðurstöður, organic search). Til þess að svo megi vera þarf að huga að ýmsum þáttum sem hafa áhrif á sýnileika, þ.e. hversu ofarlega í leitarniðurstöðum vefurinn birtist. Sumir þessara þátta eru tæknilegir og snúa að virkni vefs en aðrir snúa að innihaldi vefsi, þ.e. efni sem er á vefnum (texti) og fjölda vísana á vef, ekki síst gæði þeirra vefsíðna sem vísa á vef (linkar). Það hversu vel vefur er bestaður fyrir leitarvélar hefur svo bein áhrif á þann árangur sem hægt er að ná með keyptum auglýsingum samhliða leitarniðurstöðum (leitarherferðir í Adwords og Bing). Því er mikilvægt að huga að leitarvélabestun samhliða leitarherferðum.

Snjalltækjavæddur heimur

Í snjalltækjavæddum heimi er mikilvægt að vera með snjalltækjavænar vefsíður (mobile friendly, responsive). Fyrirtæki geta ekki horft framhjá þeirri staðreynd að neytendur afla sér upplýsinga á ferð og flugi með símann á lofti. Tíminn er líka knappur og fólk hefur litla þolinmæði gagnvart vefsíðum sem virka ekki sem skildi á slíkum tækjum og leita fljótt annað ef síðurnar skala sig ekki að þeim skjá sem fólk er að nota eða ef vefsíður eru lengi að birtast. Í tölum frá Google kemur í ljós að það tekur um 22 sekúndur að meðaltali að hlaða niður vefsíðu á snjalltæki en á sama tíma yfirgefur 53% notenda síðurnar taki það lengur en 3 sekúndur að hlaðast niður [1]. M.ö.o. alltof margar vefsíður eru í senn of þungar, flóknar og of hægar í snjalltækjum, notendum til mikils ama (sjá mynd).

Áhrifin á upplifun notandans eru augljós og kemur meðal annars fram í lakari árangri þegar kemur að sölu á netinu [2] Fyrirtæki þurfa að tryggja að vefsíður séu að birtast rétt óháð endabúnaði og fyrirtæki sem eru með óskalanlegar vefsíður (ekki responsive) þurfa að setja í forgang að breyta því. Við í Birtingahúsinu höfum fylgst náið með þessari þróun undanfarin ár. Hlutfall birtinga á snjalltækjum er sífellt að aukast sem og hlutfall sölu á snjalltækjum. Notendur eru í síauknum mæli að klára kaup í gegnum snjalltæki og þetta hlutfall á örugglega eftir að aukast þegar fram í sækir. Fyrirtæki þurfa að huga að þessari þróun og bregðast við henni.

Sjá nánar:

[1] https://www.thinkwithgoogle.com/articles/mobile-page-speed-new-industry-benchmarks.html

[2] https://www.thinkwithgoogle.com/articles/mobile-page-speed-load-time.html

[3] http://birtingahusid.is/greinar/50-greinar/290-netid-i-tolum-birtingar-arsins-2016