Google leitarvélin er ágætis hitamælir á umræðunni hverju sinni og gefur vísbendingar um það sem vekur eftirtekt og áhuga og er „heitt“. Auglýsingar hafa áhrif á umtal og umtal er að einhverju leyti afleiðing þeirra markaðsaðgerða sem eru í gangi á hverjum tíma, en það er fleira sem kemur til. Tökum dæmi: Fjölgun ferðamanna á Íslandi hefur ekki farið framhjá neinum og er gaman að skoða áhugann fyrir Íslandi, hvernig hann kemur fram í leitarvélum og hverju sá áhugi tengist.


Mynd 1 - Fjölgun ferðamanna 2004-2014


Ef við skoðum gögn aftur í tímann og hversu mikið er leitað að Íslandi á Google, er greinilegt að áhugi fólks á að „googla“ okkar ágæta land er nátengdur umfjöllun erlendra fjölmiðla um atburði sem hér eiga sér stað.


Mynd 2 - "Ísland" gúgglað (þróun yfir tímabilið 2008-2015)

Topparnir á Google tengjast t.d. umfjöllun heimspressunar um bankahrunið (2008) en ekkert toppar þó áhuga heimsins á því sem hér gerðist í kjölfar eldgossins í Eyjafjallajökli árið 2010. Athyglin sem Ísland fékk í kjölfar eldgossins í Eyjafjallajökli hefur vafalítið aukið umtal og vitund um landið, og haft einhver áhrif á fjölgun ferðamanna til landsins.

Auglýsingaherferðir og leitarvélar

Við sjáum þetta samspil einnig vel ef við skoðum það sem gerist í tengslum við Mottumars herferðina. Mottumars er árlegt árverknisátak krabbameinsfélagsins gegn krabbameini hjá karlmönnum. Auglýsingar í sjónvarpi, útvarpi, dagblöðum og interneti fara vonandi ekki framhjá neinum, en þegar þetta er skrifað hafa um 77.000 séð auglysinguna á YouTube.


Mynd 3 - Mottunarsauglýsing 2015

Áhuginn á átakinu kemur vel fram á Google eins og sést á myndinni hér fyrir neðan, en meira er leitað að hlutum sem tengjast átakinu með beinum eða óbeinum hætti. Fólk leitar að auglýsingunum í tengslum við átakið, einkennum krabbameins og leitarstöðvum Krabbameinsfélagsins svo einhver dæmi séu nefnd.

Mynd 4 - Svörun við auglýsingum sem tengjast Mottumars og Krabbameinsfélaginu

Góð ráð á Google

Fólk gúgglar nánast all milli himins og jarðar og er fátt leitarvélum óviðkomandi. Þó Google geti grafið upp upplýsingar um flesta hluti (eða vísað okkur í rétta átt), þá eru sumum spurningum erfiðara að svara en öðrum. Í lokin eru hér nokkur dæmi um það sem fólk hefur gúgglað og gefur ágæta mynd af ólíkri nálgun og skilningi fólks á leitarvélum:

  • hvað heita margir harpa sjöfn hermundardóttir
  • hvað eru margir í sinfóníuhljómsveit íslands
  • hvernig á að gleyma hlutum sem maður sér eftir
  • hvað þekur líter af málningu marga fermetra
  • hvað kostar að hafa lambalæri í veislu
  • er í líkamsrækt og er að pæla hvaða vítamín eg ætti að taka

Frosti Jónsson