Fjórðungur netauglýsinga sem voru í umsjón Birtingahússins á síðasta ári (2014) og birtust á íslenskum og erlendum vefmiðlum (Display Networks, RTB) birtust í farsímum eða spjaldtölvum. Árið 2014 voru 75% birtinga í borð- og fartölvum, um 14% birtinga voru í spjaldtölvum og 11% voru í snjallsímum.

Þetta eru niðurstöður mælinga Birtingahússins á árangri vefauglýsinga á síðasta ári og gefur glögga mynd af tölvu- og snjalltækjanotkun Íslendinga.

Birtingar eftir endabúnaði

Ef hlutfallið er skoðað út frá smellum kemur í ljós að 45% allra smella á auglýsingar koma í gegnum auglýsingar sem birtast á snjalltækjum (farsímum og spjaldtölvum) en um 55% smella voru á auglýsingar sem birtust í tölvum. Hlutdeild snjalltækja þegar árangur auglýsinga er skoðaður út frá smellum er því umtalsverð.

Smellir eftir endabúnaði

Smellhlutfall hæst á spjaldtölvum

Svörun við auglýsingum er einnig mismunandi eftir endabúnaði, það er hvort notendur sjá auglýsingarnar á tölvum (fartölvur, borðtölvur), spjaldtölvum eða farsímum. Smellhlutfall auglýsinga (CTR%) er til að mynda mun hærra á spjaldtölvum og snjallsímum en á tölvum (fartölvur, borðtölvur). Smellhlutfall er hlutfall smella (clicks) af birtingum (impressions). Ef meðaltal síðasta árs er skoðað þá er smellhlutfall auglýsinga sem birtast á spjaldtölvum 0,24%, 0,13% á snjallsímum en einungis 0,08% á tölvum. Munurinn er því umtalsverður.  Því skal þó haldið til haga að ef árangur auglýsinga er skoðaður út frá sölu, þá eiga felstar sölur sér stað í gegnum tölvur, en svo virðist sem þáttur farsíma og spjaldtalva í kaupferlinu sé alltaf að verða mikilvægari.

Smellhlutfall eftir endabúnaði 

Breytingar milli ára 

Birtingahúsið hefur frá 2012 mælt árangur auglýsingaherferða með ítarlegum hætti með það að markmiði að auka gæði auglýsingabirtinga. Ef þróun áranna 2012-2014 er skoðuð kemur ýmislegt áhugavert í ljós. Hlutdeild birtinga á tölvum lækkar til að mynda milli áranna 2012-2014 á meðan hún tvöfaldast á spjaldtölvum, fer úr 7% í 14%. Ennfremur hækkar hlutdeild birtinga í snjallsímum á tímabilinu. Árið 2012 var hlutdeild birtinga á tölvum 88% en sem fyrr segir 75% árið 2014.

Hlutdeild birtinga eftir endabúnaði

Þá er ekki síður áhugavert að skoða hlutdeild smella eftir því hvar auglýsingarnar birtast. Hlutdeild smella á snjallsímum og spjaldtölvum fer úr 15% árið 2012 í 25% árið 2014 en á sama tíma fer hlutdeild smella á auglýsingar sem birtast í tölvum úr 84% í 54%. Breytingarnar eru augljósar. 

Hlutdeild smella eftir endabúnaði 

Hvað þýðir þetta fyrir auglýsendur?

Það eru svo sem engin ný sannindi að notkun snjalltækja á borð við spjaltölvur og farsíma er alltaf að aukast og það endurspeglast glögglega í þessum tölum. Hlutfall birtinga í spjaldtölvum og snjallsímum hækkar milli ára en það er ekki síður áhugavert að sjá að svörun við auglýsingum sem birtast í þessum tækjum er umtalsvert betri en þegar auglýsingar birtast á skjánum í borð- eða fartölvunum okkar. Eru neytendur móttækilegri fyrir skilaboðunum þegar auglýsingar birtast í snjalltækjum? Er sýnileiki auglýsinga meiri í snjalltækjum eða er eitthvað annað hér ræður för eins og traust á netmiðlum almennt? Þetta væri áhugavert að skoða betur.

Hverjar sem skýringarnar kunna á vera þá þurfa auglýsendur óhjákvæmilega að taka tillit til þeirrar þróunar sem er að eiga sér stað og nýta þau tækifæri sem í þessari þróun felst. Þetta snýr ekki eingöngu að miðlavali þegar kemur að auglýsingabirtingum. Fyrirtæki með úreltar vefsíður sem ekki eru hannaðar fyrir farsíma eða spjaldtölvur (sbr. responsive websites) verða að bæta þar úr og setja í algjöran forgang.

Frosti Jónsson