Töluverð umræða hefur verið um auglýsingar á erlendum vefmiðlum, stundum nefnt „Google auglýsingar“. Réttara væri þó að tala um Display auglýsingar þar sem verið er að birta auglýsingar á vefsíðum sem tilheyra fleiri auglýsingaveitum (Display Networks) en Google. Erlendis er gjarnan talað um RTB auglýsingar sem stendur fyrir Real Time Bidding. Þó umræðan hafi verið áberandi um auglýsingar á þessum auglýsingaveitum hefur minna farið fyrir umræðu um árangurinn sem þessar birtingar skila í samanburði við auglýsingar á innlendum vefmiðlum.

Að mæla árangur

Þegar við rýnum í gögn og mælingar sem við höfum í höndunum er enginn efi í okkar huga að auglýsingar á erlendum vefmiðlum geta verið góður kostur til að ná til neytenda, ef vandað er til verka. Þær koma þó alls ekki í staðinn fyrir birtingar á innlendum vefmiðlum og eru alls ekki gallalausar.

Við í Birtingahúsinu fylgjum vel með árangri auglýsingabirtinga á netinu hvort sem er á innlendum miðlum eða erlendum vefsíðum. Á síðasta ári töldu birtingar viðskiptavina okkar 425 milljón talsins (impressions) sem er um 9% aukning frá árinu áður. 70% þessara birtinga voru á innlendum vefmiðlum en 30% á erlendum auglýsingaveitum (Display Networks).

Innlendir miðlar skiluðu hinsvegar hærra hlutfalli smella á auglýsingar eða um 82% smella á meðan auglýsingar erlendum vefmiðlum skiluðu um 18% af heildarfjölda smella á auglýsingar á árinu. En það þarf að líta til fleiri þátta til að meta árangur birtinga en fjölda birtinga og smella enda er magn alls ekki sama og árangur.

Smellhlutfall (CTR)

Smellhlutfall (CTR%) er hlutfall smella af birtingum, því hærra, því betra. Smellhlutfall birtinga á erlendum vefsíðum er almennt lægra en á smellhlutfall auglýsinga sem birtast á íslenskum vefsíðum. Á síðasta ári var meðal smellhlutfall 0,06% á erlendum vefmiðlum samanborið við 0,13% á íslenskum vefmiðlum. Það er þó mikilvægt að hafa í huga að þetta er meðaltal allra birtinga á þessum miðlum, en smellhlutfall er afar breytilegt eftir auglýsingum, herferðum og vöruflokkum.

Ég sé ekki auglýsinguna mína! In-Screen hlutfall og auglýsingabirtinga

In Screen segir til um hlutfall birtinga í skjá hjá notendum, en viðmiðið er að 50% af vefborða birtist í 1 sek eða lengur. In-Screen hlutfall birtinga á erlendu vefmiðlunum er að öllu jöfnu lægra en á íslenskum vefmiðlum. Það var um 50,85% á erlendu auglýsingaveitunum samanborið við 62,28% á innlendu vefmiðlunum (meðaltal allra birtinga). Þó ber að hafa í huga að In-screen hlutfalli birtinga á innlendum vefmiðlum er afar breytilegt, á bilinu 20-80%, en við erum að mörgu leyti betur í stakk búin að velja auglýsingunum staðsetningar þar sem sýnileiki er hámarkaður, nokkuð sem er vandasamara á erlendu auglýsingaveitunum. 

Þróun ársins - Er magn sama og gæði?

Stærsti mánuður ársins m.t.t. til birtinga á síðasta ári var júní, en í þeim mánuði einum voru birtingarnar ríflega 50 milljón talsins, en rólegasti mánuður ársins var nóvember með riflega 21 milljón birtinga (impressions). Ef árangur er metinn út frá smellum er janúar stærsti mánuður ársins, en ef eingöngu er horft til sölu sem vefauglýsingar skila er desember stærsti mánuður árins. Magn er því ekki alltaf sama og gæði og mikilvægt að horfa til fleirri þátta en birtingamagns og smella þegar meta á árangur herferða á netinu.

Bestun auglýsingabirtinga á netinu

Að lokum...Gögn af því tagi sem Birtingahúsið aflar um árangur auglýsinga á netinu eru dæmi um sk. Off-Site mælingu en mælingar á því sem gerist eftir að viðskiptavinur kemur á vefsíðu er dæmi um sk. On-Site mælingu, það sem gerist á vefnum (gjarnan skoðað í Google Analytics). Off-site mæling á virkni og svörun vefborða er (1) forsenda þess að við getum borið saman árangur ólíkra vefmiðla, staðsetninga, auglýsingaborða og svo framvegis og (2) bestað auglýsingabirtingar, t.d. tryggt að þær auglýsingar sem skila mestum árangri m.t.t. svörunar (svo sem sölu) birtist umfram aðrar auglýsingar. Það að skoða einungis hvaðan heimsóknir skila sér inn á vefsíður segja því lítið um virkni vefauglýsinga eða árangur og möguleikinn á að besta birtingar er einfaldlega ekki til staðar. Mælingar á virkni, svörun og árangri er forsenda þess hægt sé að hámarka arðsemi auglýsingafjár.

Frosti Jónsson