Capacent hefur í mörg ár mælt svokallaða væntingavísitölu. Henni er ætlað það hlutverk að gefa vísbendingar um framtíðarvæntingar fólks/heimila er varðar tekjur, atvinnu og efnahagsmál, og eru þessir þættir mældir mánaðarlega.  Vísitala = 100 þýðir að jafn margir svarendur eru jákvæðir og neikvæðir.  Í maí 2007 var bjartsýni neytenda í hámarki, og stóð talan þá í 155 stigum.  Það kemur ekki á óvart að botninn mældist í byrjun árs 2009, skömmu eftir efnahagshrunið, talan þá í einungis 19,5 stigum.  Síðan hafa væntingarnar risið hægt og rólega og stendur vísitalan í dag í 95 stigum (mars 2014).  
Fyrr á árinu rakst undirritaður á niðurstöður mælinga rannsóknafyrirtækisins Nielsen um sambærilegar væntingar fólks í sextíu  löndum.  Þess skal getið að Nielsen er alþjóðlegur samstarfsaðili Capacent. Það er nokkuð athyglisvert að bera Ísland saman við þessa úttekt Nielsen (sjá mynd). Fyrir það fyrsta þá vekur athygli að heimsmeðaltalið er 94, nánast það sama og á Íslandi. Af þessum 60 löndum ríkir ákveðin bjartsýni í 11 þeirra en í 47 er vísitalan undir 100 stigum.  Mest neikvæðni virðist ríkja í Portúgal, Króatíu, Slóveníu, Ítalíu og Grikklandi. Þar liggur talan í 44-45 stigum.  
 
Íbúar Indónesíu, Indlands, Filippseyja, Kína og Bandaríkjana virðast hins vegar vera nokkuð bjartsýnir með núverandi stöðu sína og nánustu framtíð.  Mestu bjartsýnisstökkin á milli tímabila voru í Kólombíu, Perú og Írlandi á meðan það var á annan veg í Portúgal, Frakklandi og Mexíkó. 
 
Þess má geta að í mars í fyrra var vísitalan á Íslandi í 89 stigum og hefur því hækkað um tæp 7% milli ára (samanburðartímabila).  Leitnin hér á landi stefnir því í rétta átt, og vonandi er ekki langt að bíða þess að fleiri verði jákvæðir en neikvæðir.  Mynd: Niðurstaða 60 landa í lok árs 2013 (heimild: Nielsen.com / úttekt frá 29. Janúar 2014).
 
Væntingavísitölu og þróun hennar hér á landi má finna á heimasíðu Capacent: http://www.capacent.is/lausnir/samfelag-og-ytra-umhverfi/vaentingavisitala
 
Hugi Sævarsson