Nýleg rannsókn sýnir fram á sterka fylgni milli Twitter og sjónvarpsáhorfs. „Sjónvarpstíst“ er greinilegur áhrifavaldur á áhorf. Þetta kemur meðal annars fram í umfjöllun sem markaðsrannsóknarfyrirtækið Nielsen birti í síðustu viku og tekur mið af Bandaríkjamarkaði. Þrjátíu og tvær milljónir manns „tístuðu“ eitthvað um sjónvarp á liðnu ári í Bandaríkjunum. Það er um 10% íbúa sem telst dágott úrtak. Twitter er því orðið eitt af mikilvægustu og eftirtektaverðustu könnunarbreytunum þar í landi og víðar.

Mikil verðmæti eru m.a. falin í áminningum („tísti“) notenda um að einhver viðburður (t.a.m. sjónvarpsþáttur) sé að fara að hefjast sem og álit þeirra á gæðunum. Það kemur ekki á óvart að stóraukin fjölmiðlanotkun í gegnum tæki eins og spjaldtölvur og snjallsíma hefur mikið að segja í þessu. Um 80% eigenda slíkra tækja nota þau að minnsta kosti nokkrum sinnum í mánuði á meðan horft er á sjónvarpið, og 40% eru á samfélagsvefjum á meðan sjónvarpið er í gangi. Allir hópar leggja eitthvað af mörkum, en áhrifin mælast mest hjá yngstu aldurshópunum. Dæmi er tekið um hópinn 18-34 ára. Í kjölfar 4,2-8,5% aukningar á Twitterskilaboðum hefur áhorf á sjónvarpsþætti farið upp um allt að heilt prósent. Meira magn skilaboða (áreiti) virðist þurfa til að hreyfa við eldri hópum til að ná viðlíka árangri. Twitter og aðrir samfélagsvefir eru kvikar og áhrifaríkar boðmiðlunarleiðir.

 

Nýjar leiðir í markaðsstarfi

Söluaðilar vara og þjónustu eru misjafnlega klókir og í stakk búnir að gera sér mat úr þessum leiðum í markaðslegu tilliti. Segja má að markaðurinn hér sé talsvert á eftir þeim löndum sem við berum okkur hvað mest saman við. Góðu fréttirnar hins vegar þær að þarna liggja tækifæri (oft ódýr/hagstæð) sem nýta má mun betur, og með vaxandi þekkingu er klárt að hlutaðeigendur verða móttækilegri fyrir ferskum lausnum og hugmyndum á þessu sviði.

Nokkrar staðreyndir um Twitter

Fór í loftið í júlí 2006 - skráðir virkir notendur eru í dag rúmlega hálfur milljarður - um 150 þúsund nýjar skráningar á degi hverjum- er á meðal 10 mest heimsóttu netmiðla í heiminum - að meðaltali eru um 55 milljón "tíst" á hverjum degi - áætlaðar auglýsingatekjur fyrir árið í ár er um 400 milljónir $.

Heimildir: Nielsen Newswire (20.3.2013), SocialGuide og Statistic Brain.

Hugi Sævarsson