Líkt og undanfarin ár styrkjum við gott málefni í desember í stað þess að senda samstarfsfólki kort eða gjafir. Sá háttur er hafður á að starfsfólk Birtingahússins velur á milli þriggja málefna, það sem fær flest atkvæði hlýtur styrkinn. Litið er til þess að það hafi ekki hlotið styrk frá félaginu áður. 

Í ár var það sjóðurinn Blind börn á Íslandi sem fékk fjárstyrk og góðar kveðjur fyrir jólin. Sjóðurinn er í vörslu Blindrafélagsins. Hlutverk hans er að styrkja blind og sjónskert börn allt að átján ára aldri til kaupa á ýmsu því sem getur orðið þeim til aukins þroska og ánægju í lífinu. Þar á meðal eru sérhönnuð leikföng, leiktæki, hljóðfæri og annað slíkt sem opinberir aðilar styrkja ekki foreldra til kaupa á.

Á myndinni má sjá Huga Sævarsson framkvæmdastjóra Birtingahússins og Klöru Hilmarsdóttur umsjónarmann sjóðsins þegar afhending styrksins fór fram í dag. Vonum að styrkurinn komi sér vel með óskum til allra um gleðileg jól og farsæld á nýju ári.

Málefni sem hlotið hafa styrkveitingu síðustu fimm árin eru:
Ljósið - Reykjadalur - Einstök börn - Rjóðrið og FSMA