Þann fjórða september síðastliðinn var enn eitt blaðið brotið í sögu Facebook. Coca-Cola fékk sitt 50 milljónasta „like“ og varð þar með fyrsta smásöluvörumerkið sem eignast svo marga aðdáendur. Þegar þetta er ritað, nokkrum dögum síðar, eru þeir reyndar orðnir nokkuð fleiri, eða sem nemur tæpri tvöfaldri íslensku þjóðinni!

Ekki eru margir sem geta státað af viðlíka árangri. Slíkt má þó finna hjá YouTube, dægurstjörnum eins og Lady Gaga og Rihanna, og jú Simpsons! Það er kannski athyglisvert að hvatinn að Fésbókarsíðu Coca-Cola kemur ekki frá fyrirtækinu sjálfu. Tveir aðdáendur vörumerkisins leituðu að vettvangi á Facebook í ágúst 2008, en fundu ekkert sem uppfyllti þeirra hugmyndir. Þeir ákváðu því að búa til eigin síðu, og verður vart annað sagt en að vel hafi tekist til.

Stefna félagsins er að nýta sér þennan vettvang mun meira, enda um að ræða „samfélag“ sem hefur vaxið með gríðarmiklum hraða. Og verðmætin liggja í ýmsu. Meðal annars að fá neytendur til að skiptast á hugmyndum, fá viðbrögð við nýjum vörum, fá þeirra álit á umbúðahönnun og fleira. Í raun má segja að aðilar mættu yfir höfuð vera mun snjallari að nýta sér vettvang eins og Facebook í markaðslegu tilltiti. Íslenski markaðurinn er hér engin undantekning, reyndar nokkuð á eftir ef út í það er farið.

Það er ekki úr vegi að skoða nýjustu tölur frá Facebook um fjölda notenda, útbreiðslu og fleira. Hjá félaginu starfa um 4.000 manns. Í lok júní voru virkir þátttakendur rétt tæplega milljarður. Nokkrar vangaveltur hafa hins vegar verið uppi um raunnotendur og talið að skera megi töluna niður um tæplega 10%. Þar sé um að ræða skráða einstaklinga sem eru ekki til, sömu aðilar komi fram tvisvar og fl. (sjá m.a. á Digitaltrends og The Atlantic wire). Frávikin eru talin meiri í þróunarríkjum en færri í þeim þróuðu (s.s. Bandaríkjunum og Ástralíu). Samkvæmt Facebook er ríflega 4/5 notenda utan Bandaríkjana og Kanada og í júní 2012 voru daglegir notendur rúmlega 550 milljónir.

Facebook er vitanlega ekki eini samfélagsmiðillinn þó hann sé vissulega gríðarstór og stækkandi. Athyglisvert að skoða aðra miðla í því sambandi og kannski kemur það einhverjum á óvart að Twitter hefur nú náð 500 milljónum skráðra notenda. Er varðar Ísland þá er fjöldi skráðra aðila á Facebook nú tæplega 220 þúsund sem setur landið í 123. sæti miðað við fjölda þeirra 213 ríkja sem skráð eru. Hlutfallsleg notkun miðað við íbúafjölda er reyndar gríðarlega mikil, ein sú allra mesta í heiminum. Norðurlandabúar virðast allir mjög virkir notendur og sú þjóð þar sem kemst næst okkur eru Færeyingar, þar á eftir Norðmenn. Nokkur ríki virðast á hraðri uppleið og má þar nefna Bretland, Brasilíu og Japan. Fjöldi notenda er hins vegar í dag lang mestur í Bandaríkjunum, ríflega 160 milljónir. Minnstur er hann hins vegar í Vatikaninu, þar eru skráðir tuttugu notendur.

1209-coca-cola-facebook 

Mynd. Aldursdreifing Facebook notenda á Íslandi.

 

Hugi Sævarsson

 

Heimildir:

Coca-Cola, Mashable Business, Our Social Times, Digitaltrends, Socialbakers og Facebook. 

http://www.thecoca-colacompany.com/dynamic/press_center/2012/09/fifty-million-coca-cola-fans-on-facebook.html

http://mashable.com/2012/09/04/coca-cola-50-m-facebook-fans

http://oursocialtimes.com/index.php/2012/09/roundup-coca-colas-facebook-milestone-social-enterprise-row-googles-seo-trap-and-more/

http://newsroom.fb.com/content/default.aspx?NewsAreaId=22

http://www.digitaltrends.com/mobile/8-7-perce

http://www.theatlanticwire.com/technology/2012/08/83-million-facebook-users-are-not-real-people/55343/nt-of-facebook-users-are-fake

http://www.theatlanticwire.com/technology/2012/08/83-million-facebook-users-are-not-real-people/55343

http://www.socialbakers.com/facebook-statistics