Í júníbyrjun birti Nielsen niðurstöður könnunar þar sem þessu er svarað út frá nokkrum víddum. Heilt yfir myndi fólk helst kjósa að versla í gegnum tölvur. Finnst það líka mun auðveldara og þægilegra. Í sjálfu sér ekkert sem kemur á óvart. Heldur ekki að fólki finnst mun öruggara að versla í búðunum sjálfum, það þykir líka áreiðanlegast.

 

Það skal undirstrikað að rannsóknin er viðhorfskönnun. Hún gefur til kynna viðhorf til þessa þátta, en ekki endilega raunhegðun. Það er til að mynda vitað að mikill munur getur verið á hegðun og áliti milli vöruflokka. Vefverslun spilar stóra rullu í sölu á flugferðum og gistingu, minna í veitingasölu og sölu á daglegum neysluvörum, svo dæmi séu tekin.

Þó svo að hér sé fátt nýtt undir sólinni þá er engu að síður ágætt að fá ákveðin vitnisburð og fylgjast með þróuninni. Styður við aðrar rannsóknir og álit flestra á þessum efnum. Til dæmis áhugavert að skoða rannsókn Nielsen frá því í apríl, Traust neytenda gagnvart auglýsingum. Þar kemur fram frekar lítið traust gagnvart skilaboðum í gegnum tölvur og farsíma. Þar líkt og hér er traustið að vaxa, þrátt fyrir að enn sé langt í land. Þó sjálfsagt megi ekki búast við stórum skrefum þá minnka bilin hægt og rólega, ekki síst þegar tekið er með í reikninginn sú hraða tækniþróun sem er í gangi – og tæki og tól að renna saman í eitt. Spurningin kannski bara hversu hratt er hratt!

Meðfylgjandi er hlekkur sem vísar á skemmtilegt dæmi Tesco í S-Kóreu sem gefur mögulega einhverjar vísbendingar um ákeðna framtíð og samruna þessa alls.

 

Hugi Sævarsson
Heimild og nánari upplýsingar: NielsenWire, júní 2012. Þess skal getið að könnunin var gerð í Bandaríkjunum og voru svarendur á fjórða þúsund.