Það fór ekki framhjá neinum að Evróvisjón var haldin með miklum látum síðustu vikuna í maí í Baku í Azerbaijan. Og það kom heldur ekki mörgum á óvart hvert sigurlagið var, Loreen hin sænska kom, sá og sigraði með yfirburðum. Þegar þetta er skrifað er lagið hennar í efsta sæti vinsældalista í um 15 Evrópulöndum eða svo og framtíðin björt fyrir þessa efnlilegu söngkonu. Það er gaman að kíkja á hvað var að gerast á netinu á meðan á fárinu stóð og eftir að því lauk. Google leitarvélin er ágætt dæmi um gríðarlegan áhuga á því sem fram fór í Baku og söngkonunni. Það er gaman að bera saman hversu mikið var leitað að "loreen" annars vegar og "iceland" hinsvegar í maí 2012.

Fram eftir mánuðinum var heldur meira leitað af "Iceland" (rauða línan) en "Loreen" (bláa línana) en þegar nálgast úrslitakvöldin fer eitthvað að gerast. Í báðum tilvikum er mest leitað eftir þessum leitarorðum í Azerbaijan en þar á eftir koma lönd eins og Svíþjóð, Eistland, Lettland og Litháen. Þessi lönd voru reyndar ekkert sérlega gjafmild á stig til okkar Íslendinga, en Eistar voru eina landið sem gáfu okkur stig af þessum löndum. Myndin hér fyrir neðan talar sínu máli og segir allt sem segja þarf. Loreen er komin rækilega á kortið.

 

google-trends-loreen

 

Farsímar, spjaldtölvur og sjónvarpsáhorf

Samhliða því að horfa á showið kepptist fólk við að setja inn statusa á Facebook, Twitta og leita. Það er áhugavert að skoða hvernig leit í tengslum við Eurovision var háttað og á hvaða tækjum fólk framkvæmdi leitina. Um 38% leita úrslitakvöldið voru gerðar á farsímum og hlutdeild leita sem var framkvæmd á farsímum og spjaldtölvum jókst um 50% frá árinu áður. Danir voru þjóða duglegastir að nota farsímana sína í að leita á netinu á meðan á keppninni stóð en um 54% Dana voru að leita á farsímunum sínum úrslitakvöldið. Þá staðfesta gögnin að hlutdeild farsímana og spjaldtalva hækkar eftir því sem líður á kvöldið enda fátt þægilegra en að sitja í sófanum fyrir framan sjónvarpið og vafra á netinu. En þetta er ekki síst staðfesting á samspili miðla svo sem sjónvarps og netmiðla, eitthvað sem auglýsendur verða að hafa í huga og nýta sér í markaðsstarfinu.

 

google-trends-search-platforms

Heimildir: 
Google Mobile Ads Blog  
Google Trends 
Eurovision.tv 

 

Frosti Jónsson