Fyrir nokkrum árum var tekin sú ákvörðun að styrkja gott málefni fyrir jólahátíðina í stað þess að senda samstarfsfólki kort eða gjafir. Sá háttur er hafður á að starfsfólk Birtingahússins kemur sér saman um þrjú málefni og kýs á milli þeirra, það sem fær flest atkvæði hlýtur styrkinn. Gengið er út frá því að það hafi ekki hlotið styrk frá félaginu áður.

Í ár var það Ljósið sem fékk góða gjöf og kveðjur fyrir jólin. Ljósið er endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein/blóðsjúkdóm og aðstandendur þeirra. Miðstöðin er til húsa við Langholtsveg 43 í Reykjavík. Á myndinni tekur Berglind Kristinsdóttir fulltrúi Ljóssins við gjöfinni sem Hugi Sævarsson framkvæmdastjóri Birtingahússins afhenti. 

Markmið Ljóssins er að efla lífsgæðin með því að styrkja andlegan, félagslegan og líkamlegan þrótt og draga þannig úr hliðarverkunum sem sjúkdómurinn getur haft í för með sér.

Jólastyrkurinn er ýmist í formi gjafa- eða fjárstyrks, allt eftir ósk viðkomandi. Eftir samtöl við forsvarsmenn Ljóssins var niðurstaðan að mikil þörf væri á að bæta símakost félagsins enda einungis eitt símtæki sem þjónað hefur húsinu öllu, sem er á þremur hæðum. Úr varð að keypt var glæsileg símstöð og símtæki frá Smith&Norland. Með henni verður hægt að svara og stýra símtölum á öllum hæðum hússins.

Vonum að gjöfin komi sér vel og óskum ljósberum, aðstandendum og öðrum velunnurum alls hins besta í framtíðinni.

Málefni sem hlotið hafa styrkveitingu síðustu ár eru:
2010: Reykjadalur - sumar- og helgardvalarstaður fyrir fötluð börn og ungmenni
2009: Einstök börn - stuðningsfélag barna og ungmenna með sjaldgæfa, jafnvel ógreinda sjúkdóma eða skerðingar
2008: Rjóðrið - hvíldar- og endurhæfingarheimili fyrir langveik börn
2007: FSMA - félag aðstandenda og einstaklinga sem haldnir eru SMA sjúkdómnum á Íslandi