Eurovision 2017 og sjónvarpsáhorf

Um 98% þeirra sem horfðu á sjónvarp síðastliðið laugardagskvöld voru að horfa á úrslitakvöld söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, Eurovision, í línulegri dagskrá á RÚV skv bráðabirgðartölum. Þetta þýðir að eingöngu 2% þeirra sem voru að horfa á sjónvarpið á þessum tíma voru að horfa á eitthvað annað sjónvarpsefni. Heilt yfir horfðu fleiri á söngvakeppnina í ár heldur en í fyrra og keppnin bar að vanda höfuð og herðar yfir aðra dagskrárliði sem sýndir voru í sjónvarpi 19. viku ársins. Fleiri áhorfendur horfðu þó á keppnina árin 2014 og 2015 heldur en í ár að meðaltali. 

Meðaláhorf á Eurovision

Úrslitakvöld söngvakeppninnar í ár fékk 61% meðaláhorf og 81% uppsafnað áhorf hjá öllum 12 ára og eldri. Þetta er mesta meðaláhorf á úrslitakvöld frá því að Pollapönk tróð upp í úrslitum fyrir Íslands hönd árið 2014 en þá mældist 71,4% meðaláhorf í sama aldurshópi. Töluverður munur virðist vera á áhorfi á úrslitakvöldið eftir því hvort Ísland kemst alla leið í úrslit eða ekki. 

Í ár horfðu flestir á söngvakeppnina síðastliðinn þriðjudag er Svala steig á svið en þá mældist 67% meðaláhorf á keppnina og 86% uppsafnað hjá 12 ára og eldri. Um 95% þeirra sem horfðu á sjónvarpið á þessum tíma horfðu á fyrra undanúrslitakvöldið sem þýðir að einungis 5% sjónvarpsáhorfenda voru að horfa á eitthvað annað en Svölu í sjónvarpi. Athygli vekur að töluvert fleiri Íslendingar horfðu á Svölu keppa í undanúrslitum í ár heldur en á aðra íslenska keppendur í undanúrslitum síðastliðin ár. 

Seinna undanúrslitakvöldið í ár mældist 41% meðaláhorf, 58% uppsafnað áhorf og um 82% þeirra sem voru að horfa á sjónvarpið á þessum tíma horfðu á seinni undankeppnina. Síðastliðin fjögur ár hefur verið áberandi minna áhorf á seinna  undanúrslitakvöldið heldur en það fyrra. Ástæðan er sú að Ísland hefur aðeins einu sinni troðið upp á seinna undanúrslitakvöldinu á þessu tímabili en það var árið 2015 og þá rauk meðaláhorfið á seinna kvöldið upp í 63.5%. 

Birtingahúsið tók saman upplýsingar um áhorf Íslendinga á söngvakeppni Eurovision úr gagnagrunni Gallup. Athugið að tölur fyrir árið í ár eru eingöngu bráðabirgðartölur sem fengust afhentar með góðfúslegu leyfi frá RÚV. Þrátt fyriir að flestir áhorfendur horfi á söngvakeppni Eurovision í beinni útsendingu í línulegri dagskrá þá er athygli vakin á því að bráðabirgðartölur geta hækkað örlítið eftir að allt hliðrað áhorf er tekið saman.

 

JHG