Til gamans og fróðleiks deilum við upplýsingum hvernig miðlakaup Birtingahússins miðað við veltu skiptast eftir fyrstu sex mánuði ársins. Helstu breytingar, ef horft er á sama tímabil í fyrra, eru að hlutdeild sjónvarps hefur vaxið umtalsvert en minnkað hjá dagblöðum. Minni miðlategundirnar, umhverfismiðlar og héraðsfréttablöð hafa stækkað mjög mikið en eru eftir sem áður lítið hlutfall af heildarkökunni. Útvarp og tímarit hafa minnkað aðeins og lítil breyting á kvikmyndahúsunum. Netið á svipuðum slóðum og í fyrra, en ef fram heldur sem horfir fer það fram úr dagblöðunum fyrr en síðar. Auglýsingamarkaðurinn í heild er að vaxa á milli ára.

Birtingahúsið, janúar-júní 2016

Sjónvarpsmiðlar spegluðu í fyrra rétt tæpan þriðjung af veltunni. Ástæður aukningarinnar á milli tímabila geta verið nokkrar. Klárt er að Evrópumótið í fótbolta gerði heilmikið. Einnig voru stöðvarnar með dagskrárefni sem náði vel til landans. Má þar nefna Ófærð og Ligeglad í Sjónvarpinu, Biggest Loser Ísland á SkjáEinum (núna Sjónvarp Símans) og Ísland Got Talent á Stöð 2. Einnig mynduðust talsverðir „fréttatoppar“ á tímabilinu meðal annars í kringum Wintris-málið og forsetakosningarnar.


Dagblöðin hafa minnkað mikið síðustu árin. Munar þar langmest um minnkun á lestri stærsta dagblaðs landsins, Fréttablaðsins. Lestur þess mælist nú um 48%, en var fyrir hrun í áttina að 70%. Sú hlutdeild sem dagblöðin hafa misst í auglýsingatekjum hefur að mestu færst yfir á netmiðlana, og kemur ekki á óvart. Þar hefur hlutdeild íslensku miðlana í netbirtingum verið í kringum 75%. Restin á veitum eins og YouTube, Google og Facebook.

Staða útvarps á Íslandi er sterk í samanburði við önnur lönd. Hlutdeild útvarpsmiðla hér á landi er um tvöfalt stærri en víðast hvar erlendis.

Héraðsfréttablöð og sérrit ýmis konar hafa sótt í sig veðrið undanfarin misseri. Slíkt er eðlilegt þegar markaðurinn er í sókn, fyrirtæki að efla sína starfsemi og starfsstöðvar úti á landi. Ferðamannavöxturinn hefur líka jákvæð áhrif, meiri umsvif erlendra og innlendra ferðamanna. Tímaritin eru á svipuðum slóðum í fyrra og síðustu ár. Eru í ákveðinni varnarbaráttu líkt og dagblöðin.

Kvikmyndahúsin eru einnig nokkuð á pari við það sem verið hefur í gangi síðustu mánuði og ár. Aðsókn í bíó hefur dregist saman frá árinu 2009, en síðasta ár var undantekning með hjálp vinsælla mynda eins og Everest, James Bond og Star Wars.

Velta Birtingahússins gagnvart umhverfismiðlum hefur aukist mikið síðustu mánuði og misseri. Vaxið langmest hlutfallslega, eða ríflega tvöfalt á milli tímabila, en er ennþá mjög lítill hluti af heildarveltunni. Nú um tvö prósent en var áður tæpt eitt. Er um að ræða auglýsingar í strætóskýlum, veltiskiltum, auglýsingadúkum og þessháttar aðgerðum. Ferðamannastraumurinn hefur meðal annars áhrif og er nú svo komið að erfitt getur verið að fá pláss á ýmsum svæðum nema pantað sé vel fram í tímann.

Þess skal getið að ofangreint er ekki endilega tæmandi fyrir mögulegar markaðsaðgerðir. Viðburðir, vörukynningar, almannatengslavinna og fleira getur bæst við. Hafa ber síðan í huga að kökuritið sýnir einungis ákveðna stöðu á ákveðnu tímabili. Nálgun og miðlaval er síbreytilegt, bæði milli tímabila og verkefna.

Ágúst 2016 / Hugi Sævarsson

Tengdar greinar:
Ráðstöfun birtingafjár á íslenskum auglýsingamarkaði

Í hvað fóru peningarnir