Árangur vefauglýsinga árið 2015

Það er áhugavert að taka saman árangur vefauglýsinga á síðasta ári og bera saman við árið á undan. Á liðnu ári (2015) voru ríflega fjórðungur birtinga (impressions) á erlendum vefmiðlum (Display Network, RTB, Google auglýsingar), en ef rýnt er í árangurinn af þessum birtingum kemur í ljós að erlendir vefmiðlar skila færri smellum (13.4%) og hafa lægra smellhlutfall en birtingar á innlendum vefmiðlum. Ennfremur skila birtingar á erlendum vefmiðlum færri sölum (conversions) en birtingar á innlendum vefmiðlum. Þessar upplýsingar er mikilvægt að hafa í huga áður en farið er af stað og að markmið herferða séu skýr: er markmiðið að auka dekkun, fjölga heimsóknum á vef eða auka sölu svo eitthvað sé nefnt.

Birtingar á erlendum vefmiðlum eru hinsvegar að jafnaði ódýrari m.t.t. snertiverðs (CPM, Cost Per Mil). Staða innlendra vefmiðla er því nokkuð sterk ef árangur birtinga er borinn saman við erlenda miðla og minnir okkur og auglýsendur á að reiða sig ekki um of á einsleitt miðlaval eða eina tegund vefmiðla.

Er vefborðinn sýnilegur?

In-Screen hlutfall (viewable impressions) lækkaði lítillega á innlendum vefmiðlum milli ára og fór úr 62.3% í 60.7% (viðmiðið er að 50% vefborða birtist í 1 sek eða lengur). In-Screeen hlutfall birtinga á RTB miðlum hækkaði hinsvegar verulega milli ára sem er ánægjulegt og fór úr 50.9% í 72.8% ár. Breyttar áherslur í bestun herferða samhliða breyttum áherslum á Google Display Network (Viewable Impressions) skýra að mestu þessa breytingu milli ára. Mest um vert er að þetta þýðir að auglýsendur fá meira fyrir hverja krónu sem sett er í birtingar.

Birtingar eftir endabúnaði notenda

Árið 2014 birtist um fjórðungur auglýsinga á snjallsímum eða spjaldtölvum (http://www.birtingahusid.is/50-greinar/269-arangur-auglysinga-eftir-endabunadhi-notenda ) . Hlutdeild birtinga á þessum tækjum hækkar milli ára en um 32% allra birtinga sem Birtingahúsið hafði umsjón með birtust á snjallsímum og spjaldtölvum. Að sama skapi lækkaði hlutdeild birtinga á borð- og fartölvum milli ára, úr 75% í 68%.

Það er mikilvægt að auglýsendur fylgist vel með þessari þróun, ekki síst í ljósi þess að ekki eru allir íslenskir auglýsingamiðlar hannaðir fyrir slík tæki og því hætta á því að auglýsingabirtingar misfarist komist ekki nægjanlega vel til skila. Einnig er mikilvægt að vefauglýsingar séu skalanlegar (responsive) og lagi sig að þeim tækjum sem þær birtast á, en Adserving þjónusta Birtingahússins hámarkar gæði birtinga óháð endabúnaði.

 

Tengdar greinar:

Árangur auglýsinga eftir endabúnaði notenda

Hlutdeild vefmiðla á íslenskum auglýsingamarkaði

Adserving þjónusta birtingahússins