Traust neytenda á auglýsingum

Það er fróðlegt að skoða rannsóknir Nielsen á trausti á auglýsingum eftir ólíkum boðmiðlunarleiðum. Breyta sem markaðsfólk mætti mögulega gefa meiri gaum. Félagið hefur mælt þetta um langt skeið en nýjustu mælingar litu dagsins ljós í síðasta mánuði.  Ekki eru miklar breytingar á milli mælinga. Traustið minnkar almennt örlítið ef horft er til ársins 2013 til samanburðar. Sé hins vegar horft á þróun lengra tímabils (frá árinu 2007) þá hefur traustið aukist nokkuð, sérstaklega gagnvart nýrri boðmiðlunarleiðum (s.s. vefborðaauglýsingum, auglýsingum tengdum leitarvélum og myndbandsskilaboðum á netinu).  
 
Sú auglýsingaleið sem flestir treysta áberandi mest er sem fyrr, meðmæli frá fólki sem viðkomandi þekkir.  Á hinum endanum eru svo textaskilaboð í farsíma.  
 
Það getur verið áhugavert að skoða þessar upplýsingar út frá nokkrum sjónarhornum, velta ýmsu fyrir sér.  Til dæmis hvort leiðirnar eru "bought", "owned" eða  "earned". Dæmi: Sjónvarpsauglýsingar eru "bought", heimasíður "owned" og meðmæli frá fólki er "earned".  Einnig hvort setja eigi ákveðna varnagla, t.a.m. ef boðmiðlunarleið virðist ekki njóta trausts (t.d. ef vantraustshlutfallið er um 50% eða hærra).