Þróun auglýsingar á netinu

Gera má ráð fyrir mikilli aukningu netauglýsinga í ár sem og síðustu ár, en fyrirtæki á svokölluðum adtech markaði eru með þeim framsæknustu í heiminum í dag og hafa margfaldast í vexti á undanförnum árum. Segja má að þessi þróun sé stöðugt að breyta þeim samskiptum sem eiga sér stað á milli auglýsenda og neytenda, en gert er ráð fyrir að umfang netauglýsinga sem keyptar eru með kerfisbundnum hætti á einhvern hátt nemi allt að 50% á heimsvísu í dag af heildarveltu á auglýsingamarkaði. En hvað eru kerfisbundin auglýsingakaup?
 
Á Íslandi eru handvirk kaup á innlendum netmiðlum enn algildust þar sem föst pláss eða svæði eru keypt undir vefborða á dag- eða vikutöxtum. Þó má gera ráð fyrir að árangurstengd kaup eða svokölluð impression kaup (e. CPM – Cost per mille) fari að færast í aukana hér á landi í takt við erlenda þróun, en með slíkum kaupum eru keypt ákveðið mörg þúsund birtingar (e. impressions), annað hvort á föstum eða dreifðum plássum. 

Kerfisbundin auglýsingakaup á netinu 

Sá miðill sem hefur átt einn stærsta hlut í þeim tæknilega vexti hvað varðar kerfisbundin auglýsingakaup á undanförum árum er Real Time Bidding (RTB). Frekar en að selja auglýsingabirtingar í stóru magni á ákveðnum miðlum, snýst RTB um að hver birting sé boðin upp á kerfisbundinn hátt á meðal netmiðla og seld hæstbjóðanda á uppboðsferli sem tekur aðeins brot úr sekúndu. Slík kaup geta gefið auglýsendum meiri stjórn á því velja rétta markhópa á netinu þar sem birtingar og áhorfendur eru ekki lengur bundnir við staðsetningu á ákveðnum miðlum, og er því hægt að kaupa birtingar sem eru líklegri til að leiða til sölu.

Helstu kostir RTB birtinga:

  • Kostnaður er í samræmi við árangur
  • Minni fyrirhöfn og færri flækjustig felast í RTB plönum í samanburði við bein kaup á miðla í ljósi þess að RTB birtingum er stýrt af reikniriti.
  • Snertiverð í RTB herferðum er oftar mun lægra í samanburði við aðra vefmiðla þar sem kaup fara fram á föstu verði. 
  • Kostnaði herferða má stýra upp á krónu, en ekki þarf að kaupa ákveðið magn birtinga eins og þekkist á öðrum netmiðlum.
 
Þessi tækni, sem er í stöðugri þróun, gerir auglýsendum þannig kleift að hámarka auglýsingaferlið á skilvirkari hátt en á öðrum miðlum, en í stað þess að leggja út stór veiðinet er hægt að beina auglýsingum sérstaklega að ákveðnu mengi af hugsanlegum viðskiptavinum (markhópum). Því hærra conversion rate eða árangur sem auglýsendur fá með slíkum herferðum, því meira er hægt að draga úr kostnaði með stýrðri kostnaðaráætlun.
 
Með aukinni útbreiðslu og vinsældum á kaupum RTB birtinga, má því segja að innkaup á netauglýsinga-markaði séu að breytast hægt og rólega. RTB birtingar eru þó ekki gallalausar, en erfiðara er að stýra þáttum eins og hlutfalli sýnilegra birtinga (e. in-screen) og felst ákveðin óvissa í birtingaferlinu þar sem því er stýrt af kerfisbundnu netuppboði. Til að fá það besta af öllu kaupa langflestir auglýsendur birtingar á öðrum miðlum samhliða RTB birtingum til að tryggja sýnileika, en enn er langt í land með að RTB birtingar nái yfirhöndinni á netauglýsingamarkaði.
 
Birtingahúsið veitir auglýsendum ráðgjöf um auglýsingabirtingar, uppbyggingu auglýsingaherferða og notkun miðla. Við sérhæfum okkur meðal annars í leitarvélum (Search), leitarherferðum (PPC), leitarvélabestun (SEO) og stafrænni miðlun auglýsinga á netinu (BH Adserving).
 
Grein byggð á fyrirlestrum Ad:Tech ráðstefnunnar í London í október 2014: Power to the Advertiser – Uncovering the true benefits of Programmatic, Unlocking data-driven mobile marketing o.fl., sem og greininni Online advertising: The rise of real-time bidding.

Höfundur: Birna Sif Kristínardóttir, netráðgjafi.