Á síðasta ári (2013) var samræmdum vefmælingum hleypt af stokkunum en verkefnið hafði þá verið í undirbúningi frá því síðla árs 2010. Markmiðið með samræmdum vefmælingum er að gefa gleggri mynd af notendum íslenskra vefmiðla og auka þannig fagmensku á auglýsingamarkaðinum. Með tilkomu þessara mælinga er hægt að greina lýðfræði notenda stærstu vefmiðla landsins svo sem eins og aldur, kyn, búsetu, tekjur auk fleirri þátta og reikna árangur birtingaáætlana.

Þetta er mikil framför frá fyrri tíð þar sem upplýsingar um notendur vefmiðla voru afar takmarkaðar. Íslenski auglýsingamarkaðurinn hefur lengi vel látið nægja að styðjast við rafrænar teljaramælingar Modernus en með þeim annmörkum að engar samræmdar upplýsingar hafa verið aðgengilegar um lýðfræði netnotenda. Samræmdu vefmælingarnar bæta úr þessu en þær byggja annarsvegar á rafrænum teljaramælingum frá Modernus (site centric data) og hinsvegar gögnum um netnotkun almennings (user centric data) sem MMR sér um að afla. Gögnum úr þessum tveim upplýsingaveitum er spyrt saman þannig að úr verður gagnagrunnur sem endurspeglar raunverulegan heimsóknarfjölda á hvert vefsetur mælt í síðuflettingum sem og fjölda einstaklinga. MMR sér um framkvæmd og úrvinnslu gagna.

Mynd: Net Reach (%), 12-80 ára (Mars 2013)


Stærstu vefmiðlarnir á íslenskum auglýsingamarkaði og birtingaaðilar (birtingahúsin) standa að verkefninu. Vefmiðlarnir sem eru mældir eru:  Mbl.is, Visir.is, Dv.is, Pressan.is, Já.is og Fótbolti.net. -FJ