Hljóðið er gott í Huga Sævarssyni, framkvæmdastjóra Birtingahússins. „Við áttum okkar besta ár í fyrra, og raunar það langbesta í 13 ára sögu félagsins. Þó auglýsinga-markaðurinn sé ekki alveg búinn að ná þeim hæðum sem hann var í þegar best lét þá er vöxturinn greinilegur og stöðugur. Um leið eru mælingarnar að sýna að Birtingahúsið er að ná að taka til sín aukna markaðshlutdeild í krafti aukinnar þjónustu og nýrra lausna fyrir viðskiptavinina.“ Viðtal sem Ásgeir Ingvarsson blaðamaður tók við Huga Sævarsson og birtist í Morgunblaðinu 22. ágúst, 2013.

Ráðgjafarfyrirtæki á auglýsingamarkaði 

Birtingahúsið er ráðgjafarfyrirtæki á auglýsingamarkaði og aðstoðar auglýsendur við að ná hámarksárangri með þeim fjármunum sem lagðir eru í markaðsmál. Meðal þeirra tækja sem Hugi og félagar beita eru markaðsgreiningar og vörumerkjarýni sem hjálpa til við að koma auga á veikleika, styrkleika, möguleika og hindranir. „Ráðgjöfin er bæði fagleg og óháð og snýr að öllum gerðum boðmiðlunarleiða, hvort sem um er að ræða hefðbundnar aðferðir eða nýlegar, eins og leitarvélabestun, og samfélagsmiðla. Við skilgreinum okkur þannig að okkur er ekkert óviðkomandi,“ segir Hugi en Birtingahúsið á m.a. í fræðslu- og rannsóknarsamstarfi við alþjóðlegu auglýsingamiðlunina Carat.

Margir koma að borðinu

Hugi segir auglýsendur í auknum mæli leita í sérhæfingu. „Það módel er hratt á undanhaldi að sama stofan annist allan pakkann frá markaðsrannsóknum og ráðgjöf yfir í auglýsingagerð og birtingar. Fyrirtækin eru að uppgötva kosti þess að fá sem flesta að borðinu í markaðsmálunum og nýta styrkleika og sérfræðiþekkingu hvers og eins til fullnustu.

Ekki veitir af að fá sem fjölbreyttasta og vandaðasta sýn á auglýsingaumhverfið því markaðurinn er að breytast hratt og til að ná sem bestum árangri þarf auglýsandinn stöðugt að vera á verði. Hugi segir t.d. greinileg merki um að bæði áherslur auglýsinga og athygli neytenda sé að færast á milli miðla. „Hér á Íslandi hefur skipting auglýsingafjármagns á milli miðla verið nokkuð frábrugðin því sem sést víða annars staðar. Á heimsvísu fer mun stærri hlutur til sjónvarpsauglýsinga á meðan hér á landi eru það prentmiðlarnir sem eiga stærsta hluta kökunnar. Í nágrannalöndum okkar er líka netið orðið mun stærra eða um fimmtungur af veltu auglýsingamarkaðarins á meðan hér á Íslandi er netið varla búið að ná tveggja stafa prósentutölu.“

Erfiðara að greina á milli

Líklegt er að þróunin á Íslandi færist nær skiptingunni á heimsvísu, a.m.k. að því leyti að netið fari að spila stærra hlutverk. „Greina má merki um þessar breytingar nú þegar og eru þær m.a. drifnar áfram af auknu framboði af góðum íslenskum netmiðlum. Íslenskir auglýsendur eru líka í dag mun duglegri að nýta sér erlendar veitur eins og YouTube, Facebook og Google og hefur þar orðið algjör viðsnúningur á aðeins örfáum árum.

Þróun tækninnar virðist líka ætla að verða til þess að erfiðara verður að rata um markaðinn og skilja á milli ólíkra miðlategunda. Hugi segir að mörkin milli t.d prent-, net- og sjónvarpsauglýsinga séu hratt að mást út enda er neytandinn í dag að nýta alla þessa miðla í sama tækinu. „Bæði sjónvarpið og dagblaðið eru komin í spaldtölvuna, og jafnvel í snjallsímann líka.

Litið inn á við

Um leið og tæknin er að móta miðlamarkaðinn upp á nýtt eru auglýsendur stöðugt að gera auknar kröfur. Hugi segir það áskorun fyrir auglýsingafyrirtæki en um leið hollt fyrir markaðinn að auglýsendur eru greinilega að verja auglýsingafjármagni af mun meiri varkárni. „Íslensk fyrirtæki stíga enn varlega til jarðar í öllum útgjöldum til markaðsmála og gefa engan afslátt af gæðum og árangri.

Meðal þess jákvæða við þessa þróun nefnir Hugi að fleiri fyrirtæki hafi tekið að beina sjónum sínum að innri markaðssetningu. „Ekki er hægt að veita markaðinum góða þjónustu nema ef starfsfólkið er með á nótunum, ánægjan og viðmótið innanhúss í lagi, vitneskja um vöruna til staðar hjá öllum og allir samskiptaferlar skilvirkir.

Hann segir það hafa hent á mestu uppgangsárunum að innri markaðssetning gleymdist í öllum hamaganginum og framförunum. Birtingahúsið leggur á það mikla áherslu að innri markaðssetningu sé vel sinnt samhliða öðrum markaðsstörfum. „Ánægður og upplýstur starfsmaður kallar á ánægðan viðskiptavin, og lykillinn er að innri kerfi fyrirtækisins séu opin en ekki lokuð og allir viti hvað er í gangi. Ég held það sé engin tilviljun að flest af fremstu fyrirtækjum landsins huga mjög vel að innri markaðssetningu enda er það iðulega raunin að ef henni er ábótavant þá er hættan sú að auglýsingakaupunum verði ábótavant líka.

Viðtalið birtist í Morgunblaðinu 22. ágúst, 2013. Viðtalið tók Ásgeir Ingvarsson, blaðamaður á Morgunblaðinu.