Útvarp og auglýsingar

Mikil umræða hefur verið að undanförnu um digital media, netbirtingar, Facebook birtingar, Google Display birtingar, Adwords og fleira. Þó mesta buzzið sé með nýmiðlum má þó ekki gleyma hinum „hefðbundnu“ miðlum eins og sjónvarpi, útvarpi og blöðum. Þessir miðlar eru ennþá meginuppistaðan í birtingaáætlunum flestra fyrirtækja og þeir miðlar sem eru best mældir á Íslandi í dag.

Fagaðilar, eins og Birtingahúsið, kaupa aðgang að úrvinnslu fjölmiðlakannana sem Capacent framkvæmir og úr þessum könnunum er lesið á hvaða sjónvarpsþætti fólk er að horfa og hvenær það hlustar á útvarpið. Einnig sjáum við meðallestur þeirra dagblaða sem gefin eru út á Íslandi, DV, Fréttablaðsins, Fréttatímans, Morgunblaðsins og Viðskiptablaðsins. Kaupum á gögnunum fylgir hugbúnaður sem gerir fagaðilunum kleift við gerð birtingaáætlana að raða saman birtingum til að hámarka árangur herferðanna með sem lægstum tilkostnaði.

Hagkvæm kaup í útvarpi

Fyrir árið 2008 var áhorf/hlustun mælt með dagbókarmælingu. Þá var úrtaki úr þjóðskrá send bók tvisvar til þrisvar á ári og fólk beðið að fylla út útvarpshlustun og sjónvarpsáhorf innan tiltekinnar viku. Dagbækurnar voru svo sendar aftur til Capacent sem vann úr þeim. Þeir tímar sem voru vinsælastir í útvarpi skv. dagbókarmælingunum í nánast öllum markhópum voru tímarnir milli 7:30-9, 12-13 og 16-18. Fagaðilarnir beindu því eðlilega útvarpsbirtingunum í þessa tíma og tók verðskrá stóru útvarpsmiðlanna mið af þessum upplýsingum. Þessir tilteknu tímar voru því með hæsta verðið á sek/orð.

Mælingarnar í ljósvakamiðlum frá miðju ári 2008 og til dagsins í dag fara fram með stafrænum hætti. Þátttakendur bera lítið tæki á sér sem nemur tíðni ljósvakamiðilsins og skráir sem áhorf/hlustun. Með tilkomu rafrænu mælinganna jókst tíðni gagna til birtingahúsanna því nú sendir Capacent gögn vikulega. Það sem kom í ljós þegar gögnin tóku að berast var að hlustun á tímana 7:30-9, 12-13 og 16-18 var stórlega ofmetin og hlustun á tímana milli 9-12 og 13-16 vanmetin. Þar með urðu til tækifæri fyrir útvarpsauglýsendur að flytja auglýsingarnar í mun ódýrari tíma en ekki með mikið minni hlustun. Það sem mælir einnig með því að flytja birtingarnar er að tímarnir utan „prime-time“ eru undantekningarlaust styttri, þ.a.l. með færri auglýsendum og þar með fá þær meiri athygli hlustandans.

Tekjustýring útvarpsstöðvanna

130611-utvarpsbirtingar-ivar

Ef verðskrár stóru útvarpsmiðlanna, Rásar 2 og Bylgjunnar, eru skoðaðar frá 2009-2013 kemur hinsvegar athyglisverð þróun í ljós. Verðskrárnar hafa hækkað eins og allt annað í þjóðfélaginu. T.d. hefur verðskrá Rásar 2 hækkað á bilinu 25-43% yfir tímabilið, en þó minnst í 7-9 tímunum og 16-18 tímunum. Það sem vert er að skoða er að verðskrá Bylgjunnar á 7-9, 12-13 og 16-18 tímum hefur tvöfaldast yfir tímabilið! Þetta bendir til þess að þessir tímar séu enn langvinsælastir á stöðinni hjá auglýsendum þó að gögnin sýni að yfirburðir þessara tíma séu almennt séð ekki til staðar. Vissulega er góð hlustun á þessa tíma, en það er einnig ágæt hlustun á aðra tíma og þar liggja mögulega kauptækifærin fyrir auglýsendur.
Til að bera þetta saman í krónum og aurum við dekkun og tíðni er hægt að skoða 15 sek útvarpsauglýsingu miðaða að markhópnum 20-50 ára. Ef keypt er pláss fyrir þessa auglýsingu klukkan 8 og 17 á virkum dögum bæði á Rás 2 og Bylgjunni væri dekkunin 40% og tíðnin 2,4. Brúttó kostnaður við þetta plan yrði (kostnaðurinn án afsláttakjara) yrði kr. 277.200 + vsk.

Ef hinsvegar keyptar væru 15 sek í 10 og 15 tímunum yrði dekkunin 37,7% og tíðnin sú sama eða 2,4. Brúttó kostnaðurinn hinsvegar yrði 157.200 kr. + vsk. Þessi auka 2,3% dekkun er ansi dýru verði keypt! Auðvitað er ekki verið að mæla með að nota ekki dýrari tímana og eingöngu ódýrari. En með því að gefa þessu gaum er hægt að lækka birtingakostnað verulega án þess að það komi niður á árangri.