Framundan er spennandi ár fyrir okkur sem störfum við auglýsinga- og markaðsmál. Umræðan á nýliðnu ári hefur verið mjög lífleg og snúist mikið um tækifæri auglýsenda á netinu og notkun samfélagsmiðla. Áhugi markaðsfólks kom t.a.m. vel í ljós með metþátttöku á hádegisverðarfundi ÍMARK og Birtingahússins í október 2011. Aðalfyrirlesarar voru Jackie Frandsen og Lars Möller, sérfræðingar frá iProspect, samstarfsaðila Birtingahússins, og fluttu þeir áhugaverð erindi um mikilvægi markaðssetningar á netinu á leitarvélum. Notkun leitarvéla er ekki síst áhugaverð í ljósi þess að allt að 70% þeirra sem kaupa í gegnum netið nota leitarvélar til að afla sér upplýsinga áður en gengið er frá kaupum samkvæmt rannsóknum.

Samfélagsmiðlar í sviðsljósinu

Umræða um samfélagsmiðla hefur verið mjög lífleg hér eins og annars staðar og fært okkur sem störfum að markaðsmálum nýjar og spennandi áskoranir. Notkun samfélagsmiðla á borð við Facebook og Twitter gegna sífellt mikilvægara hlutverki í markaðssamskiptum. 

Á Facebook deilir fólk hvers kyns afþreyingarefni og miðlar fréttum auk reynslu sinnar af hinu og þessu, m.a. af vörum og þjónustu sem fyrirtæki bjóða uppá. Sú staðreynd að fólk segist treysta meðmælum frá vinum og kunningjum betur en auglýsingum í „venjulegum" miðlum (dagblöð, sjónvarp, útvarp) er nokkuð sem auglýsendur verða að hafa í huga þegar þeir ákveða að nota, eða nota ekki, samfélagsmiðla á borð við Facebook. En þrátt fyrir þessa líflegu umræðu hefur markaðsfólki gengið misvel að færa sönnur á raunverulegan ávinning af notkun samfélagsmiðla í markaðsstarfi, t.d. hvers virði aðdáendur á Facebook eru fyrirtækjum (mælt í fjölda „Like") eða hvaða viðskiptalega ávinning slík tengsl geta fært þeim síðar meir.  

 

Auglýsingamarkaður og hlutdeild miðla

Hluteild miðla

Það er áhugavert að skoða þróun íslensks auglýsingamarkaðar í þessu samhengi. Hlutdeild dagblaða hefur lengst af verið meiri en hlutdeild allra annarra miðla til samans, en tölur Hagstofunnar benda til þess að þetta sé að breytast. Þannig var hlutdeild dagblaða árið 1999 um 58% en árið 2009 var hlutdeild dagblaða komin niður í tæp 20%. Þetta skýrist að nokkru leyti af aukinni hlutdeild netmiðla. Ef þróun auglýsingamagns í dagblöðum og sjónvarpi er skoðað frá árinu 2006 sést svo ekki verður um villst að dagblöðin eiga verulega undir högg að sækja. Þannig hefur auglýsingamagn dregist saman í dagblöðum um rúmlega 40% á árunum 2006-2010 á meðan auglýsingamagn í sjónvarpi hefur aukist um 44%.

Umbylting á auglýsingamarkaði?

Breytingar á hlutdeild miðla endurspeglar þær breytingar sem eru að eiga sér stað auglýsingamarkaðinum og það aukna vægi sem vefmiðlar eru að fá, þ.m.t. samfélagsmiðla (svo sem Facebook og Twitter) og leitarvéla (t.d. Google og Bing). Það kemur því ekki á óvart að umræðan undanfarin misseri hefur snúist mikið um samfélagsmiðla og markaðssetningu á netinu og þau tækifæri sem þar eru fyrir auglýsendur.

Val á miðlum og gerð birtingaáætlana verður að taka mið af markhópnum sem á að ná í, markmiðunum herferðar og þess hvernig ólíkir miðlar vinna saman. Val á miðlum á ekki að snúast um að nota tiltekin miðil af því að einhver annar er að nota hann heldur verður fleira að koma til. Fyrirtæki verða að móta sér skýra stefnu (fyrir fyrirtækið og einstök vörumerki) um hvaða miðla eigi að nota, hvernig eigi að nota þá, hversu mikið eigi að auglýsa, hvenær og hvernig.  Án slíkrar stefnu er hætt við að markaðsstarfið verði ómarkvisst og fjármunum sóað til einskis.

__________

 

Heimildir:
iProspect and comScore Study, Oct. 2010
Admap, June og October, 2011 
Boston Consulting Group / Google clickstream research, 2010
Custom Google / Nielsen clickstream research, 2010
www.hagstofan.is
www.warc.com (hlutdeild miðla)